Gagnaver, sem hafa oft verið gagnrýnd fyrir mikla orkunotkun, gætu orðið mikilvægur hitagjafi fyrir borgir ef þau eru rétt staðsett að sögn forstjóra danska tæknifyrirtækisins Danfoss sem býður m.a. upp á varmadælur og kælikerfi fyrir gagnaver.

Í viðtali við Financial Timses sagði Kim Fausing, forstjóri Danfoss, að öll hitaþörf þýsku borgarinnar Frankfurt gæti verið mætt með afgangsvarma frá gagnaverum fyrir lok áratugarins.

Í Frankfurt eru fleiri en 60 gagnaver ásamt einum stærsta samtengipunkt fyrir internetumferð (e. internet exchaange) í heiminum. Í umfjöllun FT kemur fram að sérfræðingar áætli að nálægð við íbúða- og skrifstofuhúsnæði gæti leitt til þess að afgangsvarmi frá gagnaverum geti útvegað allri nálægðri byggð græna orku frá og með árinu 2030.

„Það er mikil ágreiningur um alla þá orku sem gagnaverin munu þurfa á að halda. En þau gætu hjálpað okkur að leysa upphitunarvanda í ákveðnum borgum ef þau eru rétt staðsett,“ sagði Fausing.

Kim Fausing, forstjóri Danfoss.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Bent er þó á að gagnaver á Norðurlöndunum séu yfirleitt staðsett á afskekktari svæðum sem eru nálægt orkugjöfum eða köldu vatni.

Þess má geta að gagnaver atNorth í Stokkhólmi nýtir varma frá tölvubúnaði til húshitunar í sænsku borginni. Gagnaverið stendur við hlið hitaveitu, sem gerir gagnaverinu kleift að skila varma frá tölvubúnaði sem hitaveitan nýtir til húshitunar á svæðinu.

Eftirspurn eftir gagnaverum hefur aukist verulega á síðustu árum samhliða vexti gervigreindar. Áætlað er að markaðurinn fyrir gagnaver muni stækka úr 220 milljörðum dala í árslok 2022 í 418 milljarða dala fyrir lok þessa áratugar, samkvæmt markaðsrannsóknafyrirtækinu Industry ARC.