Sam­kvæmt for­sætis­ráðu­neytinu er inn­leiðing hag­ræðingar- og um­bóta­verk­efna í ríkis­rekstri nú komin á fullt skrið í ráðu­neytunum.

Ráðu­neytið segir að yfir helmingur þeirra til­lagna sem hag­ræðingar­hópur ríkis­stjórnarinnar skilaði í mars sé annaðhvort í fram­kvæmd eða til skoðunar.

For­sætis­ráðu­neytið greinir frá því að þar hafi þegar verið hrint af stað nokkrum verk­efnum, þar á meðal af­námi hand­hafa­launa og undir­búningi að stofnun svo­kallaðs Nefnda­húss fyrir kæru- og úr­skurðar­nefndir.

Í næstu viku segir ráðu­neytið að fleiri ráðu­neyti muni gera grein fyrir sínum verk­efnum.

Ráðu­neytið vísar til þess að for­sætis­ráðherra, Kristrún Frosta­dóttir, hafi lagt áherslu á hagsýni í ríkis­rekstri sem eitt af megin­mark­miðum ríkis­stjórnarinnar. Í janúar var haft víðtækt samráð við al­menning, ríkis­stofnanir og ráðu­neyti, þar sem óskað var eftir til­lögum að um­bótum og hag­ræðingu. Starfs­hópur vann síðan úr þúsundum til­lagna og skilaði sínum eigin í byrjun mars.

Í til­kynningunni kemur fram að vinnu­hópur for­sætis- og fjár­málaráðu­neytis hafi, í sam­starfi við önnur ráðu­neyti, unnið að fram­kvæmd til­lagnanna. Í júní hafi verið lögð fram verkáætlun með 178 skil­greindum verk­efnum sem ríkis­stjórnin ætli að ljúka á kjörtíma­bilinu.

Verk­efnin snúa m.a. að sam­einingum ríkis­stofnana, ein­földun stjórnsýslu, sparnaði og aukinni skil­virkni. Mark­miðið sé ekki aðeins hag­ræðing heldur líka bætt þjónusta og dreifing starfa um landið.

„Ég er stolt af því hvað vinnan með tillögur hagræðingarhópsins hefur gengið hratt og vel, í þéttu samráði við ráðuneytin. Nú er góður gangur kominn á fjölmörg verkefni og víða verður hægt að stíga afgerandi skref á næstu tólf mánuðum,“ segir Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra.

„Við höfum talað um að nú sé verðmætasköpunarhaust en við erum ekki síður í tiltekt. Við ætlum að laga ríkisfjármálin og taka til. Ná stjórn, hagræða og hrista upp í kerfinu. Með þessu setjum við tóninn fyrir fjárlög næsta árs sem kynnt verða í byrjun september.“

Dæmi um verk­efni í for­sætis­ráðu­neytinu

Af­nám hand­hafa­launa: For­sætis­ráðu­neytið segir að frum­varp verði lagt fram í haust.

Nefnda­hús: Stefnt sé að stofnun sam­eigin­legs húsnæðis fyrir kæru­nefndir og úr­skurðar­nefndir.

Raf­ræn ríkis­stjórn og ríkis­ráðs­af­greiðslur: Pappírs­laus vinnu­brögð og raf­rænar undir­ritanir til að spara tíma og kostnað.

Breytt lagaum­gjörð um stofnana­skipan: Skoðað verði hvort ráðherrar geti tekið ákvarðanir um nýjar stofnanir eða sam­einingar án aðkomu Alþingis.

Aukin sam­hæfing innan stjórnarráðsins: Verk­efni til lengri tíma sem miða að meiri samræmingu og sparnaði í grunn­starf­semi.

For­sætis­ráðu­neytið segir að fleiri ráðu­neyti muni kynna sín hag­ræðingar- og um­bóta­verk­efni í næstu viku.