Arnþór Sigurðsson, stjórnarmaður í VR, vandar Höllu Gunnarsdóttur settum formanni og meirihluta stjórnar VR ekki kveðjurnar vegna biðlaunamálsins svokallaða í aðsendum pistli á Vísi í gær.

Í pistlinum, sem ber heitið „Af góða fólkinu og vonda fólkinu í VR og stóra biðlaunamálinu“, hafnar hann lýsingum meirihlutans - sem hann kallar góða fólkið - og fullyrðir að Halla Gunnarsdóttir, sem nú er í framboði til formanns, hafi átt stóran þátt í atburðarrásinni. Ákveðinn hópur fólks nýti þá deiluna til að upphefja sjálft sig og skora nokkur stig í kosningu til stjórnar VR.

„Málið er nú að verða frekar langdregið og ýmislegt gengið á síðustu daga. Halla Gunnardóttir hefur náð fram því sem hún vildi á þeim tíma sem hún vildi fá biðlaunamálið fram. En það er mér hulin ráðgáta hvers vegna góða fólkið í stjórn VR sendi út sérstaka yfirlýsingu í fjölmiðla um það hversu dugleg þau eru að hafa náð að koma málinu fram í svona mikilli andstöðu vonda fólkið í stjórn VR,“ segir í pistli Arnþórs.

Forsaga málsins er að níu stjórnarmenn sendu fyrr í vikunni frá sér yfirlýsingu vegna umræðu um biðlaun Ragnars Þórs Ingólfssonar, fyrrverandi formanns VR og núverandi þingmanns Flokks fólksins.

Í umræddri yfirlýsingu kom fram að málið hafi ekki verið tekið fyrir af stjórn áður en greiðsla fór fram. Þá hafi fimm stjórnarmenn og einn varamaður reynt að stöðva aukastjórnarfund þar sem til stóð að ræða málið en sá fundur fór fram mánudaginn 24. febrúar.

Arnþór segist gruna að kvörtun sem hann sendi til framkvæmdastjóra VR, þar sem hann gagnrýndi framgöngu Höllu og ólögmæta gjörninga stjórnar hafi líklega verið kveikjan að yfirlýsingunni umræddu en hún birtist sama dag og kvörtunin var send.

Í kvörtuninni kallaði Arnþór eftir því að Halla taki leyfi frá störfum sínum á meðan stjórnarkjör gengur yfir en hún hafi ítrekað farið á svig við lög og reglur félagsins á sínum stutta tíma í formannsstól.

„Sé ekki farið að lögum félagsins þá má segja að félagið sé rekið áfram með ólögum og annarlegum hvötum. Lýðræði og réttur stjórnarmanna eru fótum troðin sem er alvarlegt mál,“ segir í kvörtun Arnþórs.

Ósk um neyðarfund furðuleg

Aðdragandi málsins hafi verið sá að framkvæmdastjóri VR hafi haft samband við formann launanefndar, sem einnig á sæti í stjórn, til að fá samþykki að fyrir að gera upp við Ragnar og fór sú greiðsla fram um síðustu mánaðarmót.

„Þetta uppgjör hefði alltaf komið fyrir næsta stjórnarfund, en það hefði ekki hentað Höllu Gunnarsdóttur að fá þetta mál fram svo seint eða eftir að kosningu til stjórnar væri lokið.

Nú get ég mér til um að Halla hafi fengið vitneskju um greiðsluna á skrifstofu VR. Sérstakur fundur var haldinn í launanefnd VR á föstudegi, en okkur er tjáð að fimm stjórnarmenn hafi óskað eftir fundi á fimmtudegi. Óskin um þennan neyðarfund kemur á undan fundi launanefndar sem er haldinn á föstudegi sem er merkileg tímaröð,“ skrifar Arnþór.

Sjálfur segist Arnþór einn hafa hvatt Höllu og stjórnarmennina fimm til að draga til baka ósk sína um sérstakan fund. Taldi hann að slíkur fundur myndi verða til þess að gjörðir framkvæmdastjórnarinnar yrðu gerðar tortryggilegar. Á fundinum sem fór loks fram 24. febrúar hafi framkvæmdastjórinn beðist afsökunar á greiðslunni, þrátt fyrir að formaður launanefndar - sem einnig situr í stjórn - hafi samþykkt hana.

„Eins taldi ég þetta árás á skrifstofu félagsins að halda sérstaka fund um þessa tilteknu greiðslu, af því að skrifstofan getur engan vegin varið sig opinberlega. Á þeim forsendum taldi ég rangt að halda sérstakan fund um mál sem öllu stjórnin var komin með vitensku um. Yfirskrift fundarins var að upplýsa stjórn um að greiðslan hafi farið fram. Okkur hefði nægt tölvupóstur um það erindi og tekið það fyrir eins og önnur mál á næsta stjórnarfundi sem verður haldinn í annari viku í mars eða innan 15 daga,“ skrifar Arnþór.

„En það hentaði ekki Höllu Gunnardóttur, málið varð að fara fyrir neyðarfund.“

Rangfærslur af hálfu Höllu

Hann bætir enn fremur við að þeir stjórnarmenn sem vildu fresta fundinum hafi talið að boðun fundar með svo skömmum fyrirvara væri í trássi við lög félagsins, auk þess sem það þyrfti ekki að grípa til neyðarráðsstafana til að tilkynna stjórn um það sem hún vissi nú þegar. Þá hafi það alltaf legið fyrir að fjölmiðlar myndu fjalla um samningin og „beinlínis kjánalegt“ að halda að einhver gæti komið í veg fyrir að hann yrði umtalsefni.

Hann beinir loks spjótum sínum aftur að Höllu Gunnarsdóttur og ummæla sem hún hefur látið falla í fjölmiðlum. Spurð um hvort sambærilegt ákvæði um biðlaun væru í hennar samningi sagðist hún t.a.m. hafa fallið frá sex mánaða réttindum og stytt í þrjá mánuði, enda væri hún aðeins settur formaður.

„Þetta eru rangfærslur, Höllu var aldrei boðið sex mánaða biðlaun og ótrúlegt að hún skuli halda þessu fram. Reyndar var einn af stjórnarmönnum sem taldi rétt að Halla ætti að fá sex mánaða biðlaun, þessi tiltekni stjórnarmaður tilheyrir góða fólkinu í VR og undirritar yfirlýsinguna á mbl,“ segir Arnþór

„Halla er í framboði til formanns og þá hefði maður haldið að hún myndi vanda sig en mér sýnist að kappið sé það mikið að annað verði að víkja, lög og reglur skipta þá engu máli.“