Þórarinn Magnús­son, bóndi á Frostastöðum, segir af og frá og ís­lenskur land­búnaður sé ein­hver vá fyrir loft­lagið líkt og haldið hefur verið fram hér­lendis. Þetta kemur fram í aðsendri grein Þórarins í Bændablaðiðsem ber heitið „Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það.”

Hann segist hafa orðið var við það í Bænda­blaðinu að síðustu misseri hefur verið mikið skrifað um kol­efnis­bindingu, lofts­lags­vænan land­búnað, sjálf­bærni, líf­fræði­legan fjöl­breyti­leika, gróður­húsa­loft­tegundir, kol­efnis­fót­spor land­búnaðarins, lofts­lags­bók­hald, endur­heimt vist­kerfa.

„Það er að sönnu ekki bein­línis sagt að bændur eigi að skammast sín eða a.m.k. að fá sam­visku­bit fyrir að of­hita jörðina með fram­ferði sínu. Að fram­leiða mat fyrir þjóð sína. En fólk skilur fyrr en skellur í tönnum,” skrifar Þórarinn.

Þórarinn bendir á að nánast allt lands­lag í Evrópu sé mann­gert nema e.t.v. allra nyrsti hluti álfunnar. Sums staðar er þétt­leiki dýra gríðar­legur, t.d. í Dan­mörku og Hollandi, annars staðar akrar eins og augað eygir. Oftast um­bylt á hverju ári.

„Opinn svörður, óvarinn fyrir veðrum og vindum. Benelúxlöndin og Rínar­svæðið með þétt­býlustu svæðum jarðarinnar. Hér verða til kenningar – réttar eða rangar – um skað­semi land­búnaðar, ekki síst búfjár­halds fyrir andrúms­loftið og vist­kerfið!!?“ skrifar Þórarinn.

Hér á Ís­landi er staðan gjörólík, segir Þórarinn.

„Fá­menn þjóð í stóru landi. Víðáttu­mikil óræktuð beitilönd og svo tún sem a.m.k. hjá sauðfjár­bændum er sára­sjaldan um­bylt heldur vaxin fjölærum grösum sem binda kol­efni úr andrúms­loftinu og fram­leiða í leiðinni súr­efni fyrir alla og allt sem lífsanda dregur. Bæði er­lendar og inn­lendar rannsóknir sýna óyggjandi að hæfi­lega bitinn út­hafi og slegin tún binda miklu meira kol­efni en óbitinn út­hagi eða ós­legin tún. Þetta geta allir sem eiga lóðir séð með eigin augum. Hér fyrir norðan fara þær að grænka og binda kol­efni um mánaðamótin apríl/maí (trú­lega fyrr syðra) og séu þær slegnar (eða beittar) heldur þetta áfram eins langt fram á haustið og tíðar­far leyfir,” skrifar Þórarinn.

Hann bendir á að sé lóðin ekki slegin fari grasið að skríða ekki seinna en í júlíbyrjun og trén fljót­lega upp úr því. Hægist þá mjög á allri ljóstillífun.

„Þess má reyndar geta að nú er ný­lega út­komin skýrsla hóps vísinda­manna sem segir hinn græna hluta jarðarinnar binda 30% meira kol­efni en IPCC gerir ráð fyrir í sínum líkönum. Engin smá villa ef rétt reynist,“ skrifar Þórarinn.

„Að láta eins og land­búnaður, eins og hann er stundaður á Ís­landi, sé ein­hver vá fyrir lofts­lagið eða líf­fræði­lega fjöl­breytni, er svo yfir­gengi­leg bábilja að engu tali tekur. Að stór hluti „land­búnaðarakademíunnar“ (að ekki sé talað um háskóla­akademíuna) skuli annaðhvort taka undir þetta eða þegja þunnu hljóði er með öllu óskiljan­legt. Hér vil ég þó undan­skilja sér­stak­lega tvo vísinda­menn – þótt nokkra fleiri mætti nefna – þau pró­fessor Önnu Guðrúnu Þór­halls­dóttur, okkar reynslu­mesta beitarsér­fræðing, og Svein Hall­gríms­son, fyrr­verandi rektor Land­búnaðar­háskólans á Hvann­eyri. Þau hafa bæði ítrekað, og með sterkum rökum, andæft þessari dellu­kenningu en eru ekki einu sinni virt svars. Firran skal keyrð áfram enda margir sem hafa orðið af henni fram­færslu,“ skrifar Þórarinn.

Hægt er að lesa greinina í heild hér.