Þórarinn Magnússon, bóndi á Frostastöðum, segir af og frá og íslenskur landbúnaður sé einhver vá fyrir loftlagið líkt og haldið hefur verið fram hérlendis. Þetta kemur fram í aðsendri grein Þórarins í Bændablaðiðsem ber heitið „Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það.”
Hann segist hafa orðið var við það í Bændablaðinu að síðustu misseri hefur verið mikið skrifað um kolefnisbindingu, loftslagsvænan landbúnað, sjálfbærni, líffræðilegan fjölbreytileika, gróðurhúsalofttegundir, kolefnisfótspor landbúnaðarins, loftslagsbókhald, endurheimt vistkerfa.
„Það er að sönnu ekki beinlínis sagt að bændur eigi að skammast sín eða a.m.k. að fá samviskubit fyrir að ofhita jörðina með framferði sínu. Að framleiða mat fyrir þjóð sína. En fólk skilur fyrr en skellur í tönnum,” skrifar Þórarinn.
Þórarinn bendir á að nánast allt landslag í Evrópu sé manngert nema e.t.v. allra nyrsti hluti álfunnar. Sums staðar er þéttleiki dýra gríðarlegur, t.d. í Danmörku og Hollandi, annars staðar akrar eins og augað eygir. Oftast umbylt á hverju ári.
„Opinn svörður, óvarinn fyrir veðrum og vindum. Benelúxlöndin og Rínarsvæðið með þéttbýlustu svæðum jarðarinnar. Hér verða til kenningar – réttar eða rangar – um skaðsemi landbúnaðar, ekki síst búfjárhalds fyrir andrúmsloftið og vistkerfið!!?“ skrifar Þórarinn.
Hér á Íslandi er staðan gjörólík, segir Þórarinn.
„Fámenn þjóð í stóru landi. Víðáttumikil óræktuð beitilönd og svo tún sem a.m.k. hjá sauðfjárbændum er sárasjaldan umbylt heldur vaxin fjölærum grösum sem binda kolefni úr andrúmsloftinu og framleiða í leiðinni súrefni fyrir alla og allt sem lífsanda dregur. Bæði erlendar og innlendar rannsóknir sýna óyggjandi að hæfilega bitinn úthafi og slegin tún binda miklu meira kolefni en óbitinn úthagi eða óslegin tún. Þetta geta allir sem eiga lóðir séð með eigin augum. Hér fyrir norðan fara þær að grænka og binda kolefni um mánaðamótin apríl/maí (trúlega fyrr syðra) og séu þær slegnar (eða beittar) heldur þetta áfram eins langt fram á haustið og tíðarfar leyfir,” skrifar Þórarinn.
Hann bendir á að sé lóðin ekki slegin fari grasið að skríða ekki seinna en í júlíbyrjun og trén fljótlega upp úr því. Hægist þá mjög á allri ljóstillífun.
„Þess má reyndar geta að nú er nýlega útkomin skýrsla hóps vísindamanna sem segir hinn græna hluta jarðarinnar binda 30% meira kolefni en IPCC gerir ráð fyrir í sínum líkönum. Engin smá villa ef rétt reynist,“ skrifar Þórarinn.
„Að láta eins og landbúnaður, eins og hann er stundaður á Íslandi, sé einhver vá fyrir loftslagið eða líffræðilega fjölbreytni, er svo yfirgengileg bábilja að engu tali tekur. Að stór hluti „landbúnaðarakademíunnar“ (að ekki sé talað um háskólaakademíuna) skuli annaðhvort taka undir þetta eða þegja þunnu hljóði er með öllu óskiljanlegt. Hér vil ég þó undanskilja sérstaklega tvo vísindamenn – þótt nokkra fleiri mætti nefna – þau prófessor Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur, okkar reynslumesta beitarsérfræðing, og Svein Hallgrímsson, fyrrverandi rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Þau hafa bæði ítrekað, og með sterkum rökum, andæft þessari dellukenningu en eru ekki einu sinni virt svars. Firran skal keyrð áfram enda margir sem hafa orðið af henni framfærslu,“ skrifar Þórarinn.
Hægt er að lesa greinina í heild hér.