Forstjóri ÁTVR, Ívar A. Arndal, segir að sjá mátti „áþreifanlegar breytingar“ í rekstrarumhverfi áfengis- og tóbaksverslunarinnar sem hafi leitt til þess að hagnaður af reglulegri starfsemi dróst saman í fyrra. „Blikur eru á lofti í rekstri ÁTVR,“ segir í upphafi formála Ívars í nýútgefinni ársskýrslu ÁTVR.

Þar fer hann hörðum orðum um netverslanir með áfengi, sinnuleysi lögreglunnar, fyrirhugað frumvarp dómsmálaráðherra. Auk þess varar hann við að það sé aðeins tímaspursmál hvenær framleiðslu íslenska neftóbaksins verður hætt.

Skerða þjónustu ÁTVR verði ekkert gert

Viðskiptablaðið fjallaði um rekstrarniðurstöðu síðasta árs hjá ÁTVR fyrr í kvöld. Þar kemur m.a. fram að sala áfengis í lítrum dróst saman um 2% milli ára.

Ívar bendir á að hlutfall ÁTVR af greiddum áfengisgjöldum hér á landi hafi lækkað úr 73,7% árið 2019 í 68,2%, eða um 5,5 prósentustig.

„Rökrétt er að álykta að þetta sé að mestu vegna ólöglegrar netsölu áfengis. Afleiðingar þessa eru að arðgreiðsla ÁTVR í ríkissjóð lækkar um 400 milljónir króna. Ef ekkert verður að gert varðandi netsöluna er líklegt að ÁTVR verði að skerða þjónustu verulega á næstu árum svo ekki komi til hallareksturs.“

Undrandi á aðgerðarleysi lögreglunnar

Ívar, sem hefur gegnt stöðu forstjóra ÁTVR frá árinu 2005, ítrekar að ríkisfyrirtækið hafi einkaleyfi til smásölu áfengis, með vísan í lög um verslun með áfengi og tóbak, og að reksturinn byggi á „augljósum lýðheilsu- og samfélagsástæðum“.

Hann segir að þegar ÁTVR hafi séð fram á vaxandi umsvif „ólöglegrar netsölu áfengis“ hafi félagið ákveðið að fara með þau mál til lögreglunnar vegna eftirlitsskyldu hennar. Ívar rifjar upp að ÁTVR hafi kært tiltekna netverslun til lögreglunnar sumarið 2020, sem gera má ráð fyrir að sé franska netverslunin Sante SAS sem Arnar Sigurðsson stýrir.

„Nú eru að verða fjögur ár liðin frá því kæran var lögð fram,“ segir Ívar. „Það er eftirtektarverð stjórnsýsla að upplýsa kæranda ekkert um stöðu mála eftir fjögurra ára rannsókn. Ekki er hægt að trúa öðru en að lögreglan komist að niðurstöðu í kærumálinu á næstu vikum. Annað er óásættanlegt.“

Á þriðja tug netverslana sprottið upp – ungmenni undir lögaldri keyri áfengið út

Ívar segir að á meðan „ólögleg netsala áfengis“ hafi ekki verið stöðvuð hafa sprottið upp á þriðja tug netverslana „sem selja og afhenda áfengi ólöglega beint af innlendum lager til neytenda“.

„Hefur ÁTVR fengið upplýsingar um að m.a. ungmenni undir lögaldri, nýkomin með bílpróf, keyri áfengið út til jafnaldra sinna sem segja að það hafi aldrei verið auðveldara en nú að nálgast áfengi. Þá eru áfengisverslanir eða „afhendingarstaðir“ áfengis farnir að spretta upp víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu.“

Sem fyrr segir heldur Ívar því fram að áfengissala netverslana á íslenskum markaði brjóti gegn einkarétti ÁTVR og sé því ólögleg. Með þessu sé grafið undan áfengisstefnu sem fylgt hafi verið hér á landi í áratugi.

„Það er óumdeilt að stór hluti netverslana, sem selja áfengi á íslenskum markaði, selja það af innlendum lager. Áfengið hefur með öðrum orðum þegar verið flutt inn til landsins og tollafgreitt þegar það er selt og afhent beint til einstakra neytenda. Vísast í því sambandi til auglýsinga frá fjölda innlendra áfengisnetverslana sem lofa heimsendingu á innan við 30 mínútum.

Því er augljóst að um ólöglega smásölu til neytenda er að ræða en ekki löglegan einkainnflutning.“

Áfengið verði að koma af lager utan landsteina

Í ávarpinu fjallar Ívar um svokallað Winefinder-mál sem Hæstiréttur Svíþjóðar kvað upp dóm í síðasta sumar. Sænska áfengiseinkasalan Systembolaget höfðaði málið gegn einkarekinni áfengisnetsölu þar sem hún taldi að fyrirkomulag á sölu netverslunarinnar væri brot á einkarétti Systembolaget.

„Niðurstaða Hæstaréttar var skýr og ótvíræð,“ segir Ívar. „Einkainnflutningur sænskra neytenda á áfengi er heimill eins og á Íslandi en áfengið verður að koma af lager sem staðsettur er utan Svíþjóðar. Áfengi afgreitt af lager í Svíþjóð er brot á ríkiseinkarétti Systembolaget og þar með ólöglegt.“

Hann segir ÁTVR hafa látið lögmann vinna minnisblað um sænska hæstaréttardóminn.

Segir áfengisstefnuna kúvendast með frumvarpi ráðherra

Líkt og Ívar hefur rakið í fyrri ársskýrslum ÁTVR hafa verið lögð fram á þriðja tug frumvarpa og þingsályktunartillagna til breytinga á núverandi fyrirkomulagi smásölu áfengis hér á landi, með litlum árangri.

Hann furðar sig því á því að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hafi lýst yfir áformum um að leggja fram frum­varp til breyt­inga á áfeng­is­lög­um sem heim­ili rekst­ur inn­lendra vef­versl­ana með áfengi í smá­sölu til neyt­enda. Hún sé þriðji dómsmálaráðherrann í röð sem lýsi yfir slíkum áformum.

„Ekkert bendir til þess að málið nái fram að ganga nú frekar en í fyrri skipti. Það er því aðkallandi að fá niðurstöðu í kæru ÁTVR sem legið hefur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í tæp fjögur ár,“ skrifar Ívar.

Hann segir mikilvægt að árétta að enginn munur sé í raun á smásölu og netsölu. Að mati Ívars er augljóst að verði frumvarp dómsmálaráðherra að veruleika þá verði smásala áfengis ekki lengur byggð á lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð.

„Með því að heimila einkaaðilum slíka verslunarstarfsemi liggur í hlutarins eðli að í raun er einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis fellt niður. Slíkt fæli í sér að Ísland kúventi áfengisstefnu sinni. Lýðheilsusjónarmið væru yfirgefin og í stað þess farið inn í veruleika markaðsvæðingar þar sem markaðsöflin réðu ríkjum hvað varðar áfengissöluna.“

Endalok íslenska neftóbaksins tímaspursmál

Sala tóbaks hjá ÁTVR hefur dregist töluvert saman undanfarin ár, ekki síst vegna vinsælda nikótínpúða, og var árið 2023 engin undantekning. Selt magn neftóbaks lækkaði um 13,6% milli áranna 2022 og 2023.

„Sala neftóbaks heldur áfram að dragast saman og einungis seldust um 10 tonn á síðasta ári,“ segir Ívar. „Nýjar vörur á markaðnum, nikótínpúðar, sem ekki bera tóbaksgjald og eru þar af leiðandi mun ódýrari en íslenska neftóbakið, hafa tekið yfir markaðinn. Ef svo fer sem horfir með íslenska neftóbakið er aðeins tímaspursmál hvenær framleiðslu þess verður hætt.“