Stjórnarformaður Ölmu leigufélags segir „ómögulegt með nokkurri sanngirni“ að kalla hóflega hækkun leiguverðs að undanförnu leiguokur. Hann segir hækkun leiguverðs á árinu 2022 hjá félaginu aðeins hafa verið 1,9% að raunvirði, þrátt fyrir að undirliggjandi þættir eins og fasteignaverð, mannfjöldi og vextir hafi hækkað mun meira. Þetta kemur fram í aðsendri grein Gunnars Þórs Gíslasonar á Vísi sem ber titilinn Málsvörn leigusala.

Þá kemur fram í greininni að leiguverð hafi lækkað um 7% að raunvirði frá byrjun 2020 til mars 2023. Þótt til séu dæmi um mikla hækkun einstakra samninga sé staðreyndin sú að leiguverð hafi ekki haldið í við aðra verðmyndandi þætti. Fullyrðingar um fákeppni og okur á leigumarkaði eigi ekki við rök að styðjast, a.m.k. ekki í tilfelli Ölmu leigufélags.

Leiguverð aldrei lægra hlutfall af fasteignaverði

Gunnar segir rétt að til séu dæmi um fúsk á leigumarkaði. Það sé hins vegar af og frá að þau séu lýsandi um markaðinn í heild.

Síðustu mánuði hafa frásagnir af miklum leiguverðshækkunum og jafnvel óásættanlegu ástandi leiguhúsnæðis verið áberandi. Ekki skal draga í efa að hægt sé að finna dæmi um miklar leiguverðshækkanir, óboðlegt ástand leiguhúsnæðis eða slæma framkomu leigusala. Það er hins vegar ósanngjarnt að ætla að slík dæmi séu lýsandi fyrir alla á rúmlega 30.000 íbúða leigumarkaði.

Leigufrysting Ölmu í fyrra stuðlaði að því að meðalhækkun leiguverðs þeirra íbúða félagsins sem voru í leigu bæði í upphafi og lok árs 2022 var aðeins 1,9% að raunvirði – það er ómögulegt með nokkurri sanngirni að kalla slíka hækkun leiguokur. Auðvitað er hægt að finna dæmi um meiri hækkun á einstökum íbúðum í leigusafninu en meðaltalið gefur miklu betri mynd af raunveruleikanum heldur en einstaka dæmi. Þessi hækkun húsnæðisútgjalda leigutaka Ölmu árið 2022 var miklu lægri heldur en hækkun húsnæðisútgjalda fasteignaeigenda sem voru með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Reyndar er það svo að Kári S. Friðriksson, hagfræðingur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar, segir að leiguverð hafi sjaldan verið jafn lágt hlutfall af ráðstöfunartekjum og aldrei lægra hlutfall af fasteignaverði heldur en núna.

Eina raunhæfa lausnin að auka framboð

Gunnar segir að málflutningur úr ranni verkalýðshreyfingarinnar sé ekki til þess fallinn að leysa vanda þeirra sem eru á leigumarkaði.

Sumir verkalýðsforingjar og aðrir sjálfskipaðir talsmenn leigjenda sem hafa haft sig mest í frammi í umræðunni um leigumarkaðinn hafa talað fyrir leiguþaki eða leigubremsu. Það hafa einnig komið fram kröfur úr sömu átt að lífeyrissjóðir skuli selja öll skuldbréf sem þeir eiga á Ölmu og alls ekki taka þátt í frekari fjármögnun félagsins. Slík „úrræði“ munu aðeins draga úr framboði á leiguhúsnæði og auka vandann á húsnæðismarkaði til lengri tíma litið.

Metfjölgun var á íbúum á Íslandi í fyrra og nam fjölgunin tæplega 12.000 manns. Þessi fjölgun íbúa er ein ástæða aukinnar eftirspurnar eftir húsnæði. Því miður er ekki hægt að töfra fram nýjar íbúðir á nokkrum mánuðum og eina raunhæfa langtímalausnin á húsnæðisvandanum er að auka framboð af leiguíbúðum. Þar dugar ekki ein ríkisleið heldur þurfa margir að leggja hönd á plóg, þar á meðal öflug leigufélög eins og Alma íbúðafélag. Við erum ekki hluti af vandanum á húsnæðismarkaði heldur hluti af lausninni.