Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, segir að samanburður Viðskiptaráðs á starfsréttindum hjá hinu opinbera og í einkageiranum hljóti að teljast ómarktækur. Hún segir raunar að gögn kjaratölfræðinefndar bendi til þess að starfsfólk hjá hinu opinbera vinni að jafnaði fleiri vinnustundir en fólk á almennum vinnumarkaði.

Viðskiptaráð birti í gærmorgun úttekt um sérréttindi opinberra starfsmanna. Sam­kvæmt greiningunni njóta opin­berir starfs­menn sérréttinda sem jafn­gilda um 19% kaup­hækkun miðað við einka­geirann. Styttri vinnuvika vegur þar þyngst og jafngildir 11,1% kauphækkun opinberra starfsmanna.

Í úttektinni kemur fram að vinnuvikan sé að meðaltali 3,4 klukkustundum styttri hjá opinberum starfsmönnum samanborið við starfsfólk í einkageiranum. Meðalfjöldi vikulegra vinnustunda sé 32,3 klukkustundir hjá hinu opinbera en 35,7 klukkustundir í einkageiranum.

Mynd tekin úr úttekt Viðskiptaráðs.

Áróður ráðsins jaðri við þráhyggju

Kolbrún Halldórsdóttir segir að Viðskiptaráð velji að láta þess hvergi getið að umrætt meðaltal tekur til allra starfa, líka þeirra sem gegna hlutastörfum.

„Í ljósi þess að hlutastörf og vaktavinnustörf eru mun algengari hjá hinu opinbera en í einkageiranum hlýtur þessi samanburður að teljast ómarktækur. Í skýrslu kjaratölfræðinefndar vorið 2024 er þessi mismunur rakinn til umfangs hlutastarfa,“ skrifar Kolbrún í grein á vef BHM.

Þá segir hún að samkvæmt gögnum kjaratölfræðinefndar fái fullvinnandi hjá hinu opinbera greiddar 177 klukkustundir að meðaltali á mánuði en á almenna markaðnum séu þær að meðaltali 175,1.

„Þetta sýnir að starfsfólk hjá hinu opinbera vinnur að jafnaði fleiri vinnustundir en fólk á almennum vinnumarkaði. Viðskiptaráð velur hins vegar að sýna meðaltal vinnustunda fyrir alla, bæði fullvinnandi og hlutastörf. Þessi skekkja í útreikningum veldur því að vinnuvikan virðist styttri hjá opinberum starfsmönnum.

Hún er hins vegar sambærileg ef einungis er borið saman starfsfólk í fullu starfi. Það er því eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Í greininni segir hún Viðskiptaráð hafa með ítrekuðum tilraunum reynt að etja saman starfsfólki á almennum og opinberum vinnumarkaði „svo jaðrar við þráhyggju“.

„Úttektin og framsetning hennar virðist því einungis gerð í áróðursskyni. Þá er rétt að spyrja um hvað snýst áróðurinn og hverjum er hann ætlaður? Það er ekki langsótt að draga þær ályktanir að skilaboðin séu ætluð stjórnmálafólki, mögulega þeim sem nú freista þess að mynda nýja ríkisstjórn, og séu liður í síendurteknu suði Viðskiptaráðs um að einkamarkaðurinn sé betur til þess fallinn að reka skóla, heilbrigðis- og velferðarþjónustu en hið opinbera.“

Mismunur á hlutföllum kynjanna skekki samanburðinn

Kolbrún segir einnig mikilvægt að hafa í huga að þau störf hjá hinu opinbera sem um ræðir séu að stórum hluta unnin af fjölmennum kvennastéttum. Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar séu 73% þeirra sem starfa í opinbera geiranum konur.

Af þeim sem starfa í einkageiranum séu hins vegar 65% karlar en 35% konur. Kolbrún bendir einnig á að karlar vinni að jafnaði fleiri vinnustundir á viku, eða 38 klukkustundir samanborið við 31 klukkustund hjá konum, samkvæmt vorskýrslu Kjaratölfræðinefndar 2024. Þar að auki vinni karlar frekar yfirvinnu, sem hækkar heildarfjölda vinnustunda í einkageiranum enn frekar.

„Þessi mismunur á hlutföllum kynjanna skekkir því samanburðinn umtalsvert þegar lagt er mat á tímakaup og lengd vinnuvikunnar. Þó vaktavinna geti vissulega boðið upp á aukavaktir, er rýmið fyrir yfirvinnu í opinbera geiranum iðulega takmarkaðra en í einkageiranum.“