Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, hefur svarað framkvæmdastjóra Betri samgangna í tengslum við umfjöllun gærdagsins um sjálfkeyrandi bíla og borgarlína.

Í svari hans til Viðskiptablaðsins segir Guðmundur meðal annars að Reykjavík sé ekki að uppbyggingu evrópsk borg og að uppbygging hennar og eðli er að öllu leyti bandarísk.

„Notkun íbúa hennar á bifreiðum er eins og hjá Bandaríkjamönnum og Kanadamönnum og íbúum norðurhluta Skandinavíu,“

Guðmundur er þarna að vitna í grein Science Direct sem fjallar um minnkandi notkun lesta og strætisvagna.

Í tengslum við umfjöllun um framkvæmdakostnað borgarlínu segir Guðmundur að 250 milljarða króna sé komin frá borgarfulltrúum sjálfum en Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, sagði að kostnaðurinn gæti sennilega verið 250 milljarðar í viðtali á Bylgjunni árið 2020.

Guðmundur vitnar einnig í TED-Talk með prófessornum Nico Larco þar sem hann segir að með sjálfkeyrandi bílum verði hægt að þétta byggð þar sem ekki verður þörf fyrir bílastæði. Sjálfkeyrandi bílar munu þar að auki keyra hraðar og þéttar.

„Tveimur kynslóðum of seint"

Guðmundur segir nær að nota hluta af peningunum sem myndu sparast í mikilvægari samgöngubætur.

„Gott væri að nota hluta af peningnum sem sparast við að hefja ekki uppbyggingu á almenningssamgöngum núna tveimur kynslóðum of seint, til að bæta samgöngur utan Reykjavíkur; þannig að gamalmenni komist til læknis, konur til kvensjúkdómalækna og í meðgönguskoðun, viðskiptafólk geti sinnt viðskiptaerindum og opinberir starfsmenn sínum málum, vörur eigi greiða leið til útflutnings, fólk geti heimsótt ættingja og vini, íbúar og ferðamenn skoðað landið án þess að setja sig í lífshættu. Allt árið um kring.“