Jamie Dimon, forstjóri JPMorgan Chase bankans, sakaði í morgun seðlabanka heimsins um að hafa haft „100% rangt fyrir sér“ þegar þeir gerðu hagspár sínar fyrir 18 mánuðum síðan. Að hans mati ættu seðlabankar að sýna smá hógværð í kjölfarið þegar þeir spá um ástandið á næsta ári.
Dimon var gestur á fjárfestingaráðstefnu í Sádi-Arabíu í morgun, þar sem hann dró í efa getu ríkisstjórna og seðlabanka til þess að takast á við núverandi efnahagsástand með tilheyrandi verðbólgu samhliða því að reyna leyfa hagvexti að ná fram.
Sóun í ríkisfjármálum vandamál
„Útgjöld ríkissjóða hafa aldrei verið meiri á friðartímum og það er þessi almættis trú á að seðlabankar og ríkisstjórnir geti stýrt sig í gegnum þetta allt. Ég er mjög aðgætinn gagnvart því sem mun gerast á næsta ári,“ sagði Dimon en The Guardian greinir frá.
Dimon líkti núverandi ástandi við útgjaldabrjálæði áttunda áratugarins þegar það var mikil sóun í ríkisfjármálum að hans mati. Hann gaf einnig lítið fyrir áhrif hárra stýrivaxta.
„Ég held það hafi engin áhrif hvort vextir hækki um 25 punkta eða meira. Hvort sem kúrvan fari upp um 100 punkta, verið bara undirbúin fyrir það, þó að ég viti ekki hvort það gerist,“ sagði Dimon.