Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, telur ekki að sjóðirnir eða aðrir hafi verið værukærir gagnvart ríkisábyrgð Íbúðabréfanna svokölluðu.
Hörð viðbrögð kröfuhafa og óðagot í kjölfar kynningar fjármálaráðherra sé ekki til marks um að óvarkárni hafi falist í verðlagningu bréfanna, sem gengið hafa kaupum og sölum á svo til sama verði og ríkisskuldabréf síðustu ár. Ekkert tilefni hafi verið til að efast um fullgildi ábyrgðarinnar.
Velta því upp hvort kröfuhafar hefðu mátt leita af sér allan grun
Viðmælendum blaðsins á fjármálamarkaði sem ekki vildu láta nafns síns getið þótti hins vegar vert að velta því upp – eftir á að hyggja – hvort lánadrottnar og þá sér í lagi þeir stærstu hefðu átt að láta vinna lögfræðiálit á ábyrgðinni, jafnvel fleiri en eitt, til að taka af allan hugsanlegan vafa um mörk og eðli hennar og þar með virði bréfanna.
Jafnvel hverfandi líkur á skakkaföllum hefðu enda getað verið rök gegn því að sjóður setti of mörg egg í Íbúðabréfakörfuna, en þau eru í dag um og yfir helmingur eigna hjá þeim undirsjóðum sem hvað mest eiga.
Nokkur umræða kviknaði um ábyrgðina í kjölfar uppþots árið 2013 þegar Eygló Harðardóttir þáverandi ráðherra húsnæðismála lét í viðtali við Bloomberg hafa eftir sér að kröfuhafar þyrftu að koma að lausn á skuldavanda sjóðsins.
„Nú þurfum við bara að gulltryggja að það mat standist.“
Þórey telur lagastöðu sjóðanna sterka og telur það í fljótu bragði alveg á hreinu að ríkinu beri að greiða bréfin upp í topp samkvæmt óbreyttri greiðsluáætlun.
Að því sögðu hljóti sjóðirnir að þurfa að tryggja sig í bak og fyrir þegar fjármálaráðherra stígi fram með þessum hætti.
„Ef það er einhver vafi í þessum efnum þá náttúrulega hljótum við að þurfa að afla okkur lögfræðiálits á stöðunni, og það eru sjóðirnir að gera. Fljótt á litið er sá vafi ekki til staðar. Nú þurfum við bara að gulltryggja að það mat standist.“
„Mátti það ekki vera fyrirséð líka?“ spyr hún um áhrif kynningarinnar. „Ráðherra hefur völd, og það er hlustað á hann. Hann býr þarna til óróa, það er alveg ljóst. Það er alveg vitað hver fer með löggjafarvaldið.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.