Heimildin birti í dag frétt undir fyrirsögninni „Hluthafarnir taka 56 milljarða úr Símanum eftir ríkisstyrki upp á 1,5 milljarða“. Þar eru arðgreiðslur Símans, sem koma að megninu til í kjölfar sölunnar á Mílu, settar í samhengi við ríkisstyrki sem framleiðslufyrirtæki sem gert hafa samning við Sjónvarp Símans hafa fengið.
„Yfirskriftin er vissulega sláandi og mjög í anda þeirrar fréttamennsku sem blaðamaður þessi aðhyllist,“ segir Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Símanum, í aðsendri grein á sama miðli.
Hann segir Inga Frey Vilhjálmsson, blaðamann Heimildarinnar, viljandi stilla fyrirsögninni upp „í þeim eina tilgangi virðist vera að sverta orðspor Símans“. Í meginmáli fréttinnar komi fram að arðgreiðsluna megi rekja til tugmilljarða sölunnar á Mílu til Ardian.
„Hið áhugaverða er að meginmál fréttarinnar fjallar síðan um að staðhæfingin í fyrirsögninni er röng. Það er þó með öllu óvíst að lesendum Heimildarinnar hafi dugað athygli til lestursins alls og því nauðsynlegt að svara þessum skrifum sem bæði eru röng og rætin.“
Hafa ekkert með opinbera styrki í aðfangakeðjunni að gera
Í umræddri frétt er dregið fram að endurgreiðslur og styrkir frá ríkissjóði vegna þróunar og framleiðslu sjónvarpsefnis sem sýnt hefur verið í Sjónvarpi Símans á síðustu fimm árum nemi tæplega 1,5 milljörðum króna.
Magnús bendir á að umræddir ríkisstyrkir hafi ekki runnið til Símans heldur til framleiðslufyrirtækja sem Síminn á í viðskiptum við. Síminn og aðrar efnisveitur kaupi sýngingarrétt að innlendu sjónvarpsefni en framleiðslufyrirtækin eiga áfram höfundarrétt og sölurétt á öðrum markaðssvæðum.
„Síminn hefur ekkert með það að segja að einhverjir þættir í aðfangakeðju fyrirtækisins séu styrktir af opinberu fé, hvort sem það á við um framleiðslu sjónvarpsefnis, menntun starfsfólks í dýrum háskólum, vegna lambakjötsins í mötuneytinu eða snjómoksturs í Ármúlanum.“
Nýta opinbert fé til að rógbera kollega sína
Að lokum bendir Magnús á að Síminn sé eina stóra fjölmiðlafyrirtækið á Íslandi sem njóti engra ríkisstyrkja sem ætlaðir eru einkareknum fjölmiðlum, ólíkt Kjarnanum og Stundinni, fyrirrennurum Heimildarinnar. „Þessi staðreynd er því miður ekki nógu krassandi til að rata í fyrirsagnir Heimildarinnar,“ segir Magnús.
„Hvers vegna Ingi Freyr Vilhjálmsson og forsvarsmenn Heimildarinnar lúta svo lágt að nýta opinbert fé til að rógbera kollega sína í einkarekinni fjölmiðlun er mér hulið.“