Lára V. Júlíus­dóttir, lög­maður og fyrr­verandi for­maður banka­ráðs Seðla­bankans, segir þörf á að yfir­fara skatt­heimtu sveitar­fé­laga á fast­eignum og stilla gjald­töku í takt við þá þjónustu sem veitt er.

Þetta kemur fram í að­sendri grein Láru í Morgun­blaðinu í dag er hún fjallar um sér­staka stöðu íbúa í Gríms­nes- og Grafnings­hreppi.

„Sú var tíðin að í Gríms­nesi og Grafningi bjó margt fá­tækt fólk sem átti ekki í nein hús að venda, gekk á milli bæja og var á fram­færi hreppsins. Þetta var 18. öldin. Nú er öldin önnur, sú 21. Fjöldi fólks býr nú í frí­stunda­húsum í hreppnum, flestir á sínu eigin landi og í sínum eigin húsum og greiða fast­eigna­skatta til sveitar­fé­lagsins,“ skrifar Lára.

„Fimmtungur allra frí­stunda­húsa landsins, yfir 3.300 hús, er stað­settur í Gríms­nes- og Grafnings­hreppi. Þetta fólk, í­búar frí­stunda­húsanna, heldur uppi fjár­hag sveitar­fé­lagsins. Fast­eigna­skattar nema 2/3 hluta ráð­stöfunar­tekna hreppsins og eru með því hæsta á landinu. Tekjur hreppsins af fast­eigna­sköttum ein­göngu námu kr. 1.476.635 á hvern einasta íbúa hreppsins 2023, en í­búarnir voru um sl. ára­mót 539,“ bætir hún við.

Lára bendir á að frí­stunda­húsa­fólkið í hreppnum njóti hvorki þegn­réttar né neinnar þjónustu frá sveitar­fé­laginu þrátt fyrir þessa himin­háu skatt­lagningu. Vegir eru ekki ruddir á vetrum og kostnaður vegna gáma­stöðva og sorp­hirðu er rukkaður sér­stak­lega.

„Fólki er synjað um lög­heimili í hreppnum með þeim rökum að hús þess og lendur falli ekki að því skipu­lagi sem sveitar­stjórn hefur á­kveðið. Þetta fólk er samt flest búandi í eigin húsi á eigin landi og húsin upp­fylla öll á­kvæði bygginga­reglu­gerða. Svör sveitar­stjórnar eru þau að „aðal­skipu­lagið segi nei“. Hluti fólksins greiðir ekki bara fast­eigna­skatta til sveitar­fé­lagsins heldur líka út­svar, sömu prósentu og full­gildir í­búar hreppsins greiða af sínum í­búðar­húsum,“ skrifar Lára en það er hópurinn sem Þjóð­skrá skráir sem „ó­stað­settir í hús“.

Þar að auki fá þessir í­búar þó heldur ekki lög­bundna fé­lags­þjónustu sem sveitar­fé­lögum ber að sinna, njóta ekki af­sláttar­kjara af opin­berum gjöldum sem öðrum í­búum bjóðast og þeim er bent á að einungis þeir sem skráðir eru með lög­heimili í til­teknu húsi eigi slíkan rétt.

„Allt er þetta rök­stutt með vísan til laga og reglna, s.s. á­kvörðunar­valds sveitar­fé­laga og laga­breytinga á skipu­lags­lögum, sem áttu sér stað í kjöl­far dóms Hæsta­réttar á árinu 2006. Þá komst rétturinn að þeirri niður­stöðu að sveitar­fé­lagi bæri að sinna skóla­skyldu barna sem voru bú­sett í sumar­bú­stað í sveitar­fé­laginu.

Sveitar­stjórnar­menn risu þá upp, töldu ó­ger­legt að veita þá þjónustu og kröfðust laga­breytingar sem svo var fallist á af Al­þingi. Fram til þess tíma hafði bú­seta fólks í frí­stunda­húsum verið heimil. Þegar nánar er að gætt stangast nú­gildandi á­kvæði á við mann­réttinda­á­kvæði al­þjóða­sátt­mála um rétt fólks til bú­setu,“ skrifar Lára.

Að sögn Láru á þessi framkvæmd engin fordæmi í löndunum í kringum okkur.

„Það á að sjálf­sögðu að vera leiðar­stef í allri skatt­lagningu, bæði ríkis og sveitar­fé­laga, að skatt­lagning sé hóf­leg og taki mið af þörfum hverju sinni. Í tæp tvö ár hefur starfs­hópur á vegum innan­ríkis­ráðu­neytisins haft það hlut­verk að fjalla um þessi mál. For­maður hópsins er vara­þing­maður Fram­sóknar­flokksins og er einnig sveitar­stjóri í Gríms­nes- og Grafnings­hreppi.“

Starfs­hópurinn hefur ekki skilað niður­stöðum en segir Lára að sam­kvæmt upp­lýsingum frá ráðu­neytinu frá því í júní „á næstu vikum.“

„Hópurinn hefur hins vegar hafnað því að ræða við full­trúa „föru­fólksins“ í GOGG. Nú berast af því fréttir að sveitar­stjórnar­menn á Suður­nesjum telji rétt að Grind­víkingar, sem fengu rétt til að­seturs­skráningar í kjöl­far náttúru­ham­fara sl. vetur, verði nú skráðir til réttrar sveitar og skattar og skyldur skili sér þangað sem fólkið raun­veru­lega býr. Þeir kalla eftir laga­breytingum,“ skrifar Lára.

„Verði ráðist í lag­færingar á lög­heimilis- og skipu­lags­lögum er brýnt að gleyma ekki því ó­rétt­læti sem hefur við­gengist gagn­vart „ó­stað­settum í hús“ og út­rýma föru­fólki nú­tímans í hreppum landsins. Jafn­framt þarf að yfir­fara á­kvæði um skatt­heimtu sveitar­fé­laga á fast­eignum og stilla gjald­töku í takt við þá þjónustu sem veitt er,“ skrifar Lára að lokum.