Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður og fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabankans, segir þörf á að yfirfara skattheimtu sveitarfélaga á fasteignum og stilla gjaldtöku í takt við þá þjónustu sem veitt er.
Þetta kemur fram í aðsendri grein Láru í Morgunblaðinu í dag er hún fjallar um sérstaka stöðu íbúa í Grímsnes- og Grafningshreppi.
„Sú var tíðin að í Grímsnesi og Grafningi bjó margt fátækt fólk sem átti ekki í nein hús að venda, gekk á milli bæja og var á framfæri hreppsins. Þetta var 18. öldin. Nú er öldin önnur, sú 21. Fjöldi fólks býr nú í frístundahúsum í hreppnum, flestir á sínu eigin landi og í sínum eigin húsum og greiða fasteignaskatta til sveitarfélagsins,“ skrifar Lára.
„Fimmtungur allra frístundahúsa landsins, yfir 3.300 hús, er staðsettur í Grímsnes- og Grafningshreppi. Þetta fólk, íbúar frístundahúsanna, heldur uppi fjárhag sveitarfélagsins. Fasteignaskattar nema 2/3 hluta ráðstöfunartekna hreppsins og eru með því hæsta á landinu. Tekjur hreppsins af fasteignasköttum eingöngu námu kr. 1.476.635 á hvern einasta íbúa hreppsins 2023, en íbúarnir voru um sl. áramót 539,“ bætir hún við.
Lára bendir á að frístundahúsafólkið í hreppnum njóti hvorki þegnréttar né neinnar þjónustu frá sveitarfélaginu þrátt fyrir þessa himinháu skattlagningu. Vegir eru ekki ruddir á vetrum og kostnaður vegna gámastöðva og sorphirðu er rukkaður sérstaklega.
„Fólki er synjað um lögheimili í hreppnum með þeim rökum að hús þess og lendur falli ekki að því skipulagi sem sveitarstjórn hefur ákveðið. Þetta fólk er samt flest búandi í eigin húsi á eigin landi og húsin uppfylla öll ákvæði byggingareglugerða. Svör sveitarstjórnar eru þau að „aðalskipulagið segi nei“. Hluti fólksins greiðir ekki bara fasteignaskatta til sveitarfélagsins heldur líka útsvar, sömu prósentu og fullgildir íbúar hreppsins greiða af sínum íbúðarhúsum,“ skrifar Lára en það er hópurinn sem Þjóðskrá skráir sem „óstaðsettir í hús“.
Þar að auki fá þessir íbúar þó heldur ekki lögbundna félagsþjónustu sem sveitarfélögum ber að sinna, njóta ekki afsláttarkjara af opinberum gjöldum sem öðrum íbúum bjóðast og þeim er bent á að einungis þeir sem skráðir eru með lögheimili í tilteknu húsi eigi slíkan rétt.
„Allt er þetta rökstutt með vísan til laga og reglna, s.s. ákvörðunarvalds sveitarfélaga og lagabreytinga á skipulagslögum, sem áttu sér stað í kjölfar dóms Hæstaréttar á árinu 2006. Þá komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að sveitarfélagi bæri að sinna skólaskyldu barna sem voru búsett í sumarbústað í sveitarfélaginu.
Sveitarstjórnarmenn risu þá upp, töldu ógerlegt að veita þá þjónustu og kröfðust lagabreytingar sem svo var fallist á af Alþingi. Fram til þess tíma hafði búseta fólks í frístundahúsum verið heimil. Þegar nánar er að gætt stangast núgildandi ákvæði á við mannréttindaákvæði alþjóðasáttmála um rétt fólks til búsetu,“ skrifar Lára.
Að sögn Láru á þessi framkvæmd engin fordæmi í löndunum í kringum okkur.
„Það á að sjálfsögðu að vera leiðarstef í allri skattlagningu, bæði ríkis og sveitarfélaga, að skattlagning sé hófleg og taki mið af þörfum hverju sinni. Í tæp tvö ár hefur starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins haft það hlutverk að fjalla um þessi mál. Formaður hópsins er varaþingmaður Framsóknarflokksins og er einnig sveitarstjóri í Grímsnes- og Grafningshreppi.“
Starfshópurinn hefur ekki skilað niðurstöðum en segir Lára að samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu frá því í júní „á næstu vikum.“
„Hópurinn hefur hins vegar hafnað því að ræða við fulltrúa „förufólksins“ í GOGG. Nú berast af því fréttir að sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum telji rétt að Grindvíkingar, sem fengu rétt til aðsetursskráningar í kjölfar náttúruhamfara sl. vetur, verði nú skráðir til réttrar sveitar og skattar og skyldur skili sér þangað sem fólkið raunverulega býr. Þeir kalla eftir lagabreytingum,“ skrifar Lára.
„Verði ráðist í lagfæringar á lögheimilis- og skipulagslögum er brýnt að gleyma ekki því óréttlæti sem hefur viðgengist gagnvart „óstaðsettum í hús“ og útrýma förufólki nútímans í hreppum landsins. Jafnframt þarf að yfirfara ákvæði um skattheimtu sveitarfélaga á fasteignum og stilla gjaldtöku í takt við þá þjónustu sem veitt er,“ skrifar Lára að lokum.