Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, þvertekur fyrir að bréfasendingar sínar til lögreglustjórans í Reykjavík vegna rannsóknar á netverslunum með áfengi hefði verið inngrip í lögreglurannsókn.
Í hlaðvarpsþættinum Kaffikróknum, sem Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda stýrir, sagði Sigurður Ingi að erindið hefði eingöngu verið til upplýsingar um lögfræðiálit sem unnið hefði verið fyrir ráðuneytið og til ábendingar um að ÁTVR hefði kvartað undan rekstri netverslana.
„Ég bara bendi á að það voru einhverjir dómsmálaráðherrar sem hins vegar gengu fram og sögðu opinberlega að þetta væri löglegt. Ég held að þau tilmæli til lögreglunnar séu talsvert alvarlegri en saklaust bréf fjármálaráðherra sem ber ábyrgð á rekstri mikilvægrar stofnunar á Íslandi sem er að tapa peningum.“
Sigurður Ingi virðist hér vísa í ummæli Jóns Gunnarssonar, þáverandi dómsmálaráðherra, sem sagði í kjölfar opnunar netverslunar Costco með áfengi 2023 að hann gæti ekki dregið aðra ályktun en að vefverslun með áfengi sé lögmæt, þar sem lögreglan hefði ekki aðhafst vegna starfsemi slíkra verslana.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, benti á að það væri óumdeilt að íslenskir neytendur mættu kaupa áfengi af erlendum netverslunum.
„Er ekki eitthvað stórkostlega mikið á skjön og í raun þvert á stefnu þíns flokks ef ekki má versla við innlend fyrirtæki?“ spurði hann.
„Jú algjörlega, bara sammála því. Bara ef það er gert með löglegum hætti þá held ég að ekkert sé því til fyrirstöðu,“ sagði fjármálaráðherrann.
Ólafur spurði þá hvort hann væri á því að leyfa ætti innlenda netverslun með áfengi með skýrum hætti.
„Það þarf bara fyrst og fremst að fara yfir þetta, er þetta gert með löglegum hætti í dag? Vilji menn breyta einhverju þarf það að vera umfjallað af Alþingi. Það er ekki hægt að breyta löggjöfinni, framkvæmdinni eða lýðheilsustefnu á Íslandi með því að einstök fyrirtæki túlki sjálf hvernig það er gert,“ sagði Sigurður Ingi.
Fjármálaráðherrann sagðist engu að síður taka undir að áfengislöggjöfin þyrfti endurskoðunar með. „Það gengur ekki upp [að breyta engu] þegar við horfum upp á hvað er að gerast,“ sagði Sigurður Ingi.