Icelandair tilkynnti lánveitendum og íslenska ríkinu í dag um uppsögn á lánalínu með ríkisábyrgð sem verið hefur í gildi síðan í september 2020. Uppsögnin tekur gildi 15 daga frá deginum í dag í samræmi við skilmála línunnar.
„Vel hefur gengið í uppbyggingu félagsins undanfarna mánuði eftir krefjandi tíma síðastliðin tvö ár síðan Covid faraldurinn skall á og var fjárhagsstaða félagsins sterk í árslok 2021. Þessi sterka staða mun undirbyggja þá sókn sem framundan er og styðja við metnaðarfulla flugáætlun félagsins á árinu 2022,“ segir í Kauphallartilkynningu flugfélagsins.
Ýmsir skilmálar fylgdu ríkisábyrgðinni, þar á meðal að Icelandair væri óheimilt að greiða út arð. Kallað hefur verið eftir afnámi ríkisábyrgðarinnar í ljósi bættrar stöðu flugfélagsins. Má þar nefna umsögn Félag atvinnurekenda sem taldi ábyrgð skattgreiðenda á láni til félagsins óþarfa og skaðalega, m.a. í ljósi þess að annað íslenskt flugfélag haldi einnig uppi flugsamgögnum við nágrannalönd.
Icelandair undirritaði samninga við Íslandsbanka, Landsbankann og íslenska ríkið um allt að 120 milljóna bandaríkjadala lánalínu með 90% ábyrgð ríkisins þann 15. september 2020. Línan var veitt til helminga af bönkunum tveimur og var ádráttartímabil hennar tvö ár frá undirritunardegi til 15. september 2022.
Lánalínan var hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins og var ætlað að vera lánveiting til þrautarvara sem myndi tryggja félaginu nauðsynlegt aðgengi að lausafé í tilfelli þess að neikvæð áhrif Covid-19 faraldursins drægust úr hófi.
„Ábyrgð ríkisins á lánalínunni var nauðsynlegur þáttur í að ljúka endurskipulagningunni. Hún gerði félaginu kleift að varðveita þekkingu og viðhalda nauðsynlegum innviðum til að geta brugðist hratt við og hafið uppbyggingu félagsins um leið og ástandið myndi batna, en sem það flugfélag sem flytur flesta ferðamenn til landsins og sem mikilvægur vinnuveitandi hér á landi, skiptir árangursrík uppbygging Icelandair í kjölfar Covid sköpum fyrir íslenska ferðaþjónustu sem og hagkerfi og samfélagið í heild,“ segir í tilkynningunni.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:
„Það er ánægjulegt að tilkynna um uppsögn okkar á lánalínu með ríkisábyrgð tæpum átta mánuðum á undan áætlun og þar að auki án þess að á hana hafi reynt. Línan og ábyrgð ríkisins á henni voru nauðsynlegur þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu sem tókst með samstilltu átaki allra helstu hagaðila félagsins. Þrátt fyrir að neikvæð áhrif faraldursins á starfsemi okkar, sérstaklega á fyrri hluta ársins, fluttum við 1,5 milljón farþega á síðasta ári og jukum flugframboð í 65% af því sem það var á árinu 2019. Samhliða uppbyggingu leiðakerfisins þéttum við raðirnar á ný og réðum til okkar hátt í eitt þúsund starfsmenn á árinu.
Nú þegar flugfélög og ferðaþjónusta færast nær eðlilegri starfsemi á ný, er ég þess fullviss að við hjá Icelandair höfum það sem þarf til að ná meginmarkmiði okkar í kjölfar faraldursins – að koma félaginu í sjálfbæran rekstur.“
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:
„Við tókum ákvörðun um að veita Icelandair tímabundið skjól til að endurskipuleggja starfsemi sína þegar stórt og óvænt áfall reið yfir. Rétt eins og með víðtækum almennum stuðningi við heimili og fyrirtæki vildum við með þessu gera frekar meira en minna, og trúðum að það myndi skila sér þegar upp væri staðið.
Þessi stefna hefur skilað miklum árangri. Stórminnkað atvinnuleysi, aukinn kaupmáttur og útlit fyrir eðlilegri starfsemi lykilatvinnugreina á borð við ferðaþjónustuna bera þess öll merki. Þetta eru ánægjuleg tímamót og nú eru bjartari tímar fram undan.“