Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Indó sparisjóðs, gagnrýnir Arion banka og Íslandsbanka harðlega fyrir nýlega hækkun á verðtryggðum vöxtum íbúðalána og lýsir þeim sem „gölnum“.

Í aðsendri grein á Vísi fer Haukur í löngu máli yfir skoðun sína á málinu og svarar Benedikt Gíslasyni, forstjóra Arion banka, sem varði vaxtahækkun bankans á dögunum.

Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Indó sparisjóðs, gagnrýnir Arion banka og Íslandsbanka harðlega fyrir nýlega hækkun á verðtryggðum vöxtum íbúðalána og lýsir þeim sem „gölnum“.

Í aðsendri grein á Vísi fer Haukur í löngu máli yfir skoðun sína á málinu og svarar Benedikt Gíslasyni, forstjóra Arion banka, sem varði vaxtahækkun bankans á dögunum.

Arion banki hækkaði í síðustu viku verð­tryggða breyti­lega í­búða­lána­vextir um 0,60 prósentu­stig og eru þeir nú 4,64%. Þá hækkuðu verð­tryggðir fastir í­búða­lána­vextir Arion um 0,50 prósentu­stig og eru nú 4,74%.

Íslandsbanki hækkaði í vikunni fasta vexti verðtryggðra húsnæðislána um 0,40 prósentustig og breytilega vexti verðtryggðra húsnæðislána um 0,50 prósentustig.

„Það sér auðvitað hver sem vill hversu galin þessi vaxtahækkun Arion banka og Íslandsbanka er,“ segir Haukur.

Þó vel sé hægt að rökstyðja hana í Excel, þá segir hann að þegar kemur að heilbrigðri skynsemi og að teknu tilliti til heildarmyndarinnar og stöðu hagkerfisins, þá sé hún „einfaldlega galin“.

„Þjóðin bíður með öndina í hálsinum eftir vaxtalækkunum, fylgst er með verðbólgumælingum eins og markatölu í fótboltaleik - og þá taka tveir af stærstu lánveitendum landsins sig til og hækka vextina á grundvallarlánum landsmanna. Af því að þeir sannfærðu sig um að það væri það besta í stöðunni - fyrir þá sjálfa.“

Haukur segir indó telja vaxtahækkanir Arion og Íslandsbanka endurspegla viðhorf sem sparisjóðurinn vilji breyta. Að hans mati sé óeðlilegt að bankar geti hækkað verð á sínum vörum þegar þeim hentar án þess að taka strembnar ákvarðanir, til lengri tíma, varðandi fjármögnun, tiltekt í rekstri og annað slíkt, til þess að halda verði á vörum eins lágu og hægt er.

„Bankarnir eru einfaldlega í fákeppnisstöðu og hafa verið árum og áratugum saman, og því er þeim tamt að færa kostnaðinn umhugsunarlaust yfir á viðskiptavinina í formi hærri útlánsvaxta, lægri innlánsvaxta og nýrra, og oft ansi frumlegra, þjónustugjalda. Þeir einfaldlega gera það að því að þeir geta það.“

Benedikt: Gengur ekki til lengdar að brauðið sé ódýrara en hveitið

Töluverð umræða skapaðist um vaxtakjör viðskiptabankana eftir að Arion banki og Íslandsbanki tilkynntu um ofangreindar vaxtahækkanir. Ýmsir verkalýðsforingjar og nokkrir þingmenn gagnrýndu bankana harðlega.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion, svaraði fyrir vaxtahækkun bankans í aðsendri grein á Vísi á föstudaginn þar sem hann sagði nokkuð óvenjulegar aðstæður vera á íslenska skuldabréfamarkaðnum þar sem væntingar til verðbólgu annars vegar og vaxta hins vegar séu ólíkar.

Vegna þessara ólíku væntinga geri fjárfestar skuldabréfa í dag kröfu um 5% vexti ofan á verðbætur fyrir það lánsfé sem þeir veita bönkunum í gegnum skuldabréfamarkaðinn.

Benedikt notaði þá samlíkingu að það gangi ekki til lengdar ef bakari seldi brauðið ódýrar en hveitið sem þarf til að búa það til.

Haukur: Af hverju hækkar verð á brauði miklu meira en á hveiti?

Haukur tekur undir að það sé „algerlega óumdeilt“ að hægt sé að reikna sig niður á það að við núverandi samspil verðbólgu og meginvaxta þrengi að þeim hagnaði sem bankar hafa af verðtryggðum húsnæðislánum.

„En það breytir ekki þeirri einföldu staðreynd að bankarnir sjá fram á að hagnast, tímabundið, aðeins minna á verðtryggðum húsnæðislánum vegna ytri aðstæðna, og þá hækka þeir bara vextina (eða verðið á brauðinu) samstundis og sækja sér ef til vill örlítið meiri hagnað en áður var, í leiðinni.“

Í greininni ákveður Haukur að halda sér við samlíkinguna við bakara. Við bakstur brauðs þurfi fleiri hráefni en hveiti líkt og vatn, ger og olíu.

„Færa má rök fyrir því að verðin á þessum hráefnum sveiflist upp og niður yfir tíma, en aldrei sér bakarinn ástæðu til að lækka verðið á brauðinu þegar verðin eru honum hagstæð - tækifærið er nýtt til að hækka verðið þegar hægt er, en ekki lækka það þegar aðstæður bjóða upp á það.

Bankar nota t.d. innlán til að fjármagna sín útlán og einhvern veginn er það þannig að innlánsvextir bankanna lækka á methraða en hækka seint og illa.“

Hann ber dæmið um brauðið síðan beint við vaxtahækkun Arion banka og segir að verðið á hveitinu hafi aðeins hækkað um sirka 0,2 prósentustig en verðið á brauðinu hafi hins vegar verið hækkað um 0,6 prósentustig.

„Þessar tölur má lesa út úr annars vegar því hversu mikið Arion banki ákvað að hækka álag á verðtryggða vexti og hins vegar á meðaltalsbreytingu á ávöxtunarkröfunni á markaði með sértryggðu skuldabréfin sem notuð eru til að fjármagna hluta þeirra lána.

Af hverju hækkar brauðið miklu meira en sem nemur hækkun á hveitinu?“

Segir bankana hafa hækkað vextina umsvifalaust

Haukur segir að í fyrirtækjarekstri sé ávallt sjálfstæð ákvörðun hvort eigi verð á vöru þegar innkaupsverð hennar hækkar.

Arion banki og Íslandsbanki hafi ákveðið að hækka verðið á vörunni „umsvifalaust“ og vísað í hækkun á fjármögnunarkostnaði, en viðurkenna á sama tíma að sú hækkun sé til komin vegna tímabundinna aðstæðna á markaði.

„Lítið hefur farið fyrir vaxtalækkunum banka á útlánum þegar fjármagnsmarkaðir hafa verið þeim hagfelldir - af hverju ættu viðskiptavinir að trúa að þessi hækkun gangi til baka þegar aðstæður breytast? Ég held að meginþorri almennings hafi lítinn skilning á því að sífellt þurfi að verja milljarðatuga hagnað bankanna með því að leggja sífellt þyngri byrðar á herðar viðskiptavinanna.“