Donald Trump Bandaríkjaforseti segist nú hafa náð samkomulagi um viðskiptasamning við Indónesíu. Á vef BBC segir að hann hafi samþykkt að lækka tolla, sem forsetinn var búinn að hóta, í skiptum fyrir það sem hann kallaði „fullan aðgang“ fyrir bandarísk fyrirtæki.

Skilmálar samningsins hafa enn ekki verið staðfestir af hálfu indónesísku ríkisstjórnarinnar en Prabowo Subianto, forseti Indónesíu, segir að samningurinn marki nýtt upphaf ávinnings fyrir bæði löndin.

Samningurinn er sá nýjasti sem kemur eftir flæði tollatilkynninga sem forsetinn tilkynnti fyrst í vor. Fljótlega eftir það hætti Trump við að innleiða marga tolla en endurnýjaði svo hótanir sínar í byrjun ágúst með bréfum sem hann sendi til tuga landa.

Meðal þeirra landa sem fengu bréf í síðustu viku voru Kanada, Mexíkó, Japan, Suður-Kórea og Indónesía. Bréfið sem sent var til Indónesíu, þar sem tilkynnt var um 32% tolla, kom mörgum embættismönnum þar í landi á óvart en þeir töldu sig vera nálægt samkomulagi.