Viðskiptaráð leggst gegn frumvarpi Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, um breytingu á lögum um almannatryggingar í núverandi mynd. Ráðið telur að áformin um að hækka bætur umfram laun muni draga úr hvata fólks til að taka þátt á vinnumarkaði samanborið við að þiggja bætur.
Með frumvarpinu myndu greiðslur almannatrygginga fylgja launavísitölu í stað þess að taka mið af almennri launaþróun - þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Ráðið telur þessa tvítryggingu út frá bæði launavísitölu og verðlags óeðlilega.
Í umsögn um frumvarpið bendir Viðskiptaráð á að hefði frumvarpið orðið að lögum um síðustu áramót hefði fjárhæð bóta hækkað um 13% umfram launavísitölu á þessu tímabili. Það skýrist af því að launavísitalan hefur fjórum sinnum hækkað minna en almennt verðlag á þessari öld (árin 2008-2010 og lítillega árið 2022).
Með breytingunum hefðu bætur almannatrygginga hækkað um 85% umfram verðlag samanborið við 64% hækkun launavísitölu.
„Það tók launavísitöluna rúm sjö ár að ná fyrri hæðum að raunvirði í kjölfar samdráttar árið 2008. Árið 2016 var launavísitalan rétt um 4 prósentustigum hærri en árið 2008. Með nýrri tvítryggingu hefðu bótagreiðslur aftur á móti hækkað um 17% umfram verðlag á sama tímabili, eða 13 prósentustigum meira en launavísitalan.“

Dregur úr hvata til að vinna
Viðskiptaráð segir að frá aldamótum hafi bætur almannatrygginga hækkað u.þ.b. tvöfalt á við vísitölu neysluverðs og umfram launaþróun í landinu.
„Frekari hækkun bóta almannatrygginga með tengingu við vísitölu launa í stað kostnaðarmats kjarasamninga gerir framfærslu af bótum hlutfallslega eftirsóknarverðari en áður. Með öðrum orðum þá er dregið úr hvata fólks til að taka þátt á vinnumarkaði samanborið við að þiggja bætur. Veikari staða vinnumarkaðarins dregur úr verðmætasköpun og skatttekjum sem standa undir tilfærslukerfunum.“
Þurfi aðgerðir til að draga úr fjölgun bótaþega
Ráðið segir að útgjaldavöxtur hins opinbera vegna örorku á Íslandi sé þegar hraðastur meðal Norðurlandanna og tíðni örorku með því mesta sem gerist. Þetta sé raunin bæði í hlutfalli við mannfjölda og einnig í hlutfalli við þá sem eru á vinnufærum aldri.
„Að mati Viðskiptaráðs er brýnt að stjórnvöld grípi til aðgerða til að sporna við þessari þróun og dragi úr fjölgun bótaþega, t.d. með innleiðingu virks endurmats á örorku. Breyting sem eykur hvata til að þiggja bætur en án þess að taka á þessum vanda er óskynsamleg.“
Að öllu virtu feli breytingarnar í sér þríþættan kostnað fyrir íslenskt samfélag. Í fyrsta lagi auki þær opinber útgjöld með beinum hætti vegna hækkunar bótafjárhæða og þyngi þannig byrðar skattgreiðenda „sérstaklega á tímum þegar síst skyldi“. Í öðru lagi vegna fjölgunar bótaþega, en áformaðar breytingar geri eftirsóknarverðara en áður að þiggja bætur almannatrygginga. Í þriðja lagi vegna fækkunar starfandi einstaklinga og þar með þyngri byrði þeirra sem eftir verða á vinnumarkaði.
Að lokum segir í umsögninni að núverandi lagaumgjörð almannatrygginga tryggi þegar hækkun bóta til jafns við almenna launaþróun í landinu með þeirri tryggingu að hún skuli aldrei vera lægri en verðlagsþróun.
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að gert sé ráð fyrir því að meðalkostnaðarauki vegna breytinganna miðað við uppgefnar forsendur gæti orðið 3-4 milljarðar króna á ári. Hækkunin sé þó í formi skattskyldra tekna til einstaklinga sem nú þegar fullnýta persónuafslátt og því ættu skattar af fjárhæðinni að skila sér til ríkis og sveitarfélaga.