Nokkrir af stærstu hluthöfum Eyris Invest, sem á tæplega fjórðungshlut í Marel, skoða nú að leggja fjárfestingarfélaginu til allt að 12 milljarða króna í nýtt hlutafé, samkvæmt heimildum Innherja. Stjórnendur Eyris horfi til þess að styrkja eiginfjárstöðu félagsins eftir nærri 30% lækkun á hlutabréfaverði Marels í ár.
Í umfjöllun viðskiptamiðilsins segir að væntingar standi til þess að LSR, Landsbankinn, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Birta, sem eiga samanlagt um 45% hlut í Eyri, kunni að vera reiðubúnir að standa að hlutafjáraukningu í félaginu. Umræddir hluthafar hafi þó ekki skuldbundið sig til þess að leggja félaginu til nýtt hlutafé enn sem komið er.
Ljóst sé að feðgarnir Árni Oddur og Þórður Magnússon, sem eiga samtals um þriðjungshlut í Eyri, séu ekki í stöðu til að taka þátt í hlutafjáraukningunni.
Landsbankinn gerði einnig veðkall hjá Árna Oddi
Á þriðjudagskvöld var tilkynnt um að Arion banki hefði leyst til sín 44.000.000 hluti í Eyri Invest hf., eða um 4,87% eignarhlut í fjárfestingarfélaginu, sem stóðu til tryggingar láni Árna Odds Þórðarsonar hjá bankanum. Eftir viðskiptin á Árni Oddur Þórðarson beint og óbeint 13,03% hlut í Eyri Invest hf.
Í umfjöllun Innherja segir að Landsbankinn hafi einnig gert veðkall í rúmlega 1,3% hlut Árna Odds í Eyri Invest sem hann átti í gegnum félagið Árni Oddur Þórðarson ehf.
Landsbankinn hafi gert veðkall í bréf félagsins í Eyri Invest 26. október sl. þar sem lágmarks tryggingarþekjan uppfyllti ekki lengur skilmála lánasamningsins. Heimildir Innherja herma að Árna Oddi hafi verið gefnir fimm virkir dagar til að leggja fram frekari viðbótartryggingar. Landsbankinn hafi þó að lokum ekki gripið til aðgerða á grundvelli veðkallsins. Á miðvikudaginn tilkynnti Árni Oddur að hann hefði fengið samþykkta greiðslustöðvun.
Viðskiptablaðið fjallaði um eiginfjárstöðu umrædds eignarhaldsfélags i vikunni. Skuldir félags Árna Odds við lánastofnun, sem er Landsbankinn að sögn Innherja, nam 936 milljónum króna í lok síðasta árs.
Tíu stærstu hluthafar Eyris Invest í árslok 2022
Hlutur |
20,7% |
18,1% |
14,2% |
11,6% |
11,3% |
3,4% |
3,1% |
3,0% |
3,0% |
2,6% |
91,0% |