Air France-KLM tilkynnti í dag að tvö frönsk flugfélög innan samstæðunnar hafi að undanförnu fundið fyrir neikvæðum áhrifum á áætlaðar tekjur í sumar þar sem ferðamenn virðast forðast París vegna Ólympíuleikanna sem fara fram í frönsku höfuðborginni frá 26. júlí til 11. ágúst.

Félagið sagði jafnframt að svo virðist sem Parísarbúar séu að fresta ferðalögum sínum yfir Ólympíuleikanna eða að skoða önnur ferðaplön.

Air France-KLM tilkynnti í dag að tvö frönsk flugfélög innan samstæðunnar hafi að undanförnu fundið fyrir neikvæðum áhrifum á áætlaðar tekjur í sumar þar sem ferðamenn virðast forðast París vegna Ólympíuleikanna sem fara fram í frönsku höfuðborginni frá 26. júlí til 11. ágúst.

Félagið sagði jafnframt að svo virðist sem Parísarbúar séu að fresta ferðalögum sínum yfir Ólympíuleikanna eða að skoða önnur ferðaplön.

Í tilkynningu félagsins segir að ferðalög til og frá París yfir tímabilið júní til ágúst séu að meðaltali færri en síðustu ár. Jafnframt virðist stefna í meiri flugumferð í öðrum stórum evrópskum borgum.

Air France -KLM gerir ráð fyrir að þetta muni hafa neikvæð áhrif á einingatekjur að fjárhæð 150-180 milljónir evra, eða allt að 27 milljörðum króna, yfir tímabilið júní til ágúst.

Samstæðan væntir þess að aðsókn í ferðir til og frá Frakklandi færist í eðlilegra horf eftir leikana. Eftirspurn fyrir lok ágúst og septembermánuð gefi góð fyrirheit.

Hlutabréfaverð Air France-KLM lækkaði um 1,6% í viðskiptum dagsins og hefur nú lækkað um tæplega 40% í ár.

Í umfjöllun Financial Times er bent á að þrátt fyrir merki um að færri ferðamenn ferðist til Parísar en gert var ráð fyrir þá sé áætlað að um 15 milljónir manns ferðist til höfuðborgarinnar til að fylgjast með Ólympíuleikunum.