Samtök arkitektastofa, SAMARK, hafa gert athugasemd við afstöðu Óskars Jósefssonar, forstjóra Framkvæmdasýslu ríkiseigna. Samtökin vísa í frétt sem birtist á vef RÚV þar sem greint er frá dýrum töfum sem hafa orðið á byggingu hjúkrunarheimilis á Hornafirði.

Framkvæmdir við hjúkrunarheimilið eru nú komnar 700 milljónum fram úr áætlun en miklar tafir hafa orðið á verkinu vegna þess hve hönnun hússins er flókin. Teikningar voru þar að auki ekki tilbúnar þegar framkvæmdir hófust.

Ákveðið var að fara í hönnunarsamkeppni og var ein teikning fyrir valinu en þegar verkið var boðið út reyndust tilboð svo há að bakkað var með framkvæmdina. Forstjóri Framkvæmdasýslu ríkiseigna segir að læra megi af framkvæmdinni og að slíkar samkeppnir eigi ekki við þegar byggja eigi hús á borð við hjúkrunarheimili.

„Þar sem við erum að byggja hús fyrst og fremst til þess að anna eftirspurn sem fer hratt vaxandi þá þurfum við einfaldar, hagkvæmar lausnir sem eru góðar í rekstri og góðar í byggingu. En kannski ekki hús sem eru mannvirkjalegt listaverk. Með tilliti til byggingatæknilegra þátta að það sé einfalt og hagkvæmt að byggja húsin,“ segir Óskar í samtali við RÚV.

Halldór Eiríksson, formaður SAMARK, segir þessa orðræðu bera merki þess að forstjórinn líti á arkitektúr sem aukaatriði þegar kemur að byggingu mannvirkja. Hann segir að það verði að gera þá kröfu til forstjóra FSRE að hann skilji að arkitektúr sé heildstæð hugsun niður í grunnskipulag mannvirkis, en ekki valkvæð yfirborðsáferð sem skreytt er með í lokin.

„Sú skoðun forstjórans að hönnunarsamkeppnir leiði sjálfkrafa til aukins kostnaðar á ekki heldur við rök að styðjast. Í kjölfar hönnunarsamkeppni fer fram hönnun sem byggir á forsendum og kröfum sem verkkaupi setur fram, sem væru þær sömu óháð því hvort um hönnunarsamkeppni eða annað útboðsform væri að ræða. Það er ávallt leið til að tryggja gæði og arkitektúr á sama tíma og ráðdeild er höfð með í för,“ segir Halldór.

SAMARK telur það óásættanlegt að forstjóri þeirrar ríkisstofnunar sem annast opinberar framkvæmdir telji ekki þörf á arkitektúr þegar kemur að húsnæði fyrir eldri borgara.

„Hingað til hefur Íslendingum, og ekki síst þeim kynslóðum sem hjúkrunarheimilin nú hýsa, tekist að byggja fyrir samfélag sitt arkitektúr af metnaði, þrátt fyrir takmarkaða auðlegð. Það að ein auðugasta þjóð heims geti svo ekki boðið þeim upp á slíkt á ævikvöldinu eru sérkennileg skilaboð.“