Írska matvælafyrirtækið Greencore hefur lagt fram bætt tilboð í Bakkavör, samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg. Stjórn Bakkavarar er sögð vera að íhuga tilboðið.

Í umfjöllun Bloomberg segir að til að af viðskiptunum verði þurfi Greencore að sannfæra bræðurna Ágúst og Lýð Guð­munds­syni, sem eiga um helmingshlut í Bakkavör. Þeir sitja báðir í stjórn félagsins.

Heimildarmenn Bloomberg segja að þreifingar séu enn í gangi en óvíst sé hvort þær muni leiða til samkomulags. Fulltrúar Greencore og Bakkavarar neituðu að tjá sig um málið.

Bakkavör hefur þegar hafnað tveimur yfirtökutilboðum frá Greencore og sagði í tilkynningu þann 14. mars síðastliðinn að annað tilboðið hefði vanmetið verulega virði félagsins og framtíðarhorfur þess.

Annað tilboð Greencore, sem var formlega greint frá í Kauphallartilkynningu þann 14. mars, verðmat Bakkavör á 1,14 milljarða punda, eða hátt í 200 milljarða króna, miðað við dagslokagengi írska félagsins degi áður. Það jafngildir að hlutabréf Bakkavarar hafi verið metin á 189 pens á hlut.

Umrætt tilboð fól í sér að hluthafar Bakkavarar fengju annars vegar greitt í reiðufé og hlut í sameinuðu félagi. Hluthafar Grenncore hefðu eignast 59,8% hlut og hluthafar Bakkavarar 40,2% í sameinuðu félagi.

Hlutabréfaverð Bakkavarar hefur hækkað um 15% í ár og stendur nú í 168,5 pensum á hlut. Markaðsvirði félagsins nemur nú um 976 milljónir punda.