Viðskiptaráð styður áformað frumvarp dómsmálaráðherra um að heimila rekstur innlendra vefverslana með áfengi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ráðið telur fyrirliggjandi frumvarp hins vegar ganga of skammt og vera of íþyngjandi í núverandi mynd.

Viðskiptaráð styður áformað frumvarp dómsmálaráðherra um að heimila rekstur innlendra vefverslana með áfengi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ráðið telur fyrirliggjandi frumvarp hins vegar ganga of skammt og vera of íþyngjandi í núverandi mynd.

Í umsögn við frumvarpsdrögin segist Viðskiptaráð vilja árétta að vefverslun með áfengi sé nú þegar leyfileg og í boði hjá mörgum rekstraraðilum hérlendis. Einungis ríki lagaleg óvissa um heimildir innlendra aðila til að starfrækja vefverslun á jafnréttisgrundvelli við erlenda aðila.

„Viðbrögð stjórnvalda við þessari þróun eru ámælisverð. Fyrirtækið sem nýtur ríkiseinokunar hefur kært einkarekin fyrirtæki til lögreglu og skattayfirvalda auk þess að fara fram á lögbann á starfsemi tveggja þeirra, en þeim málum var vísað frá dómi.

Þá hefur fjármála- og efnahagsráðherra jafnframt haft pólitísk afskipti af sakamálarannsókn, sem er í hæsta máta óeðlilegt, grefur undan sjálfstæði lögreglunnar og trausti borgaranna á því að mál þeirra séu rannsökuð á hlutlausan hátt.“

Handstýra neytendum í viðskipti við erlendar verslanir

Viðskiptaráð segir að það sé eflaust einsdæmi í íslenskri löggjöf að íslenskum neytendum sé ekki heimilt að kaupa vöru af innlendri verslun en heimilt að versla af erlendri verslun og fá senda heim að dyrum.

Núverandi lagaumgjörð þjóni því ekki tilgangi sínum og taki ekki tillit til tækniframfara og þeirra breytinga sem hafa orðið á alþjóðaviðskiptum á neytendamarkaði.

„Í framkvæmd geta neytendur flutt inn áfengi frá erlendum vefverslunum að vild til einkaneyslu en hið opinbera handstýrir neytendum í viðskipti við erlendar verslanir með því að takmarka atvinnufrelsi hér á landi.“

Ekki verði séð að ÁTVR miði að minna aðgengi

Lýðheilsusjónarmiðum sé gjarnan haldið á lofti þegar rætt er um einokun hins opinbera á áfengissölu. Viðskiptaráð segir erfitt að sjá að slík sjónarmið standi því í vegi að frumvarpið nái fram að ganga.

Bent er á að fjöldi verslana ÁTVR hafi margfaldast og séu nú 51 talsins, auk þess sem erlendum vefverslunum hafi fjölgað, innflutningur verið gefinn frjáls, áfengissala á framleiðslustað verið leyfð og neytendur geta fengið áfengi á veitingastöðum, kaffihúsum og kappleikjum, í sjoppum, matarvögnum, flugvélum og ferjum svo eitthvað sé nefnt.

„Samhliða þessu stóraukna aðgengi hefur unglingadrykkja hrunið,“ segir í umsögninni.

„Viðskiptaráð telur auðsýnt að fyrrgreindum lýðheilsumarkmiðum megi ná fram án þess að draga úr atvinnufrelsi með einokunarverslun ríkisins. Þannig væri skynsamlegra að taka upp fyrirkomulag áfengissöluleyfa með skýrum viðurlögum við lögbrotum. Slíkt fyrirkomulag hefur gefið góða raun þegar kemur að smásölu á tóbaki.“

Mynd tekin úr umsögn Viðskiptaráðs.

Geti frekar hækkað áfengisgjaldið

Þá er bent á að hið opinbera beiti nú þegar sértækum sköttum til að hækka verð á áfengi og takmarki þannig aðgengi. Þeir skattar séu óháðir fyrirkomulagi ríkiseinokunar.

„Vilji löggjafinn takmarka aðgengi að áfengi enn frekar með hærra vöruverði væri nærtækara að hækka áfengisgjöld í stað þess að stunda verslunarrekstur.“

María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, skrifar undir umsögnina.
© Aðsend mynd (AÐSEND)