Tæplega 1.000 íbúðir teknar úr sölu í janúarmánuði, og voru þær um 300 fleiri heldur en í desember 2024. Í nýrri mánaðarskýrslu HMS kemur fram að ekki hafi jafnmargar fasteignir verið teknar úr sölu í janúarmánuði frá árinu 2021, þegar vextir voru í lágmarki.

Til samanburðar voru 928 fasteignir teknar úr sölu í janúarmánuði í fyrra, en á árunum 2022 og 2023 voru 725 og 751 fasteign tekin úr sölu í janúar.

„Hægt er að áætla umsvif á fasteignamarkaði út frá fjölda íbúða sem teknar eru úr sölu á vefnum fasteignir.is í hverjum mánuði, þar sem sterk fylgni hefur verið á milli þeirra og fjölda útgefinna kaupsamninga,“ segir í skýrslunni.

Stofnunin segir að samkvæmt fyrstu tölum var að minnsta kosti 608 kaupsamningum þinglýst í janúar ef frá eru talin atvinnuhúsnæði og sumarhús. Þar sem nokkurra vikna töf geti verið á því að þinglýstir kaupsamningar berist í kaupskrá HMS gætu þinglýstir kaupsamningar í janúarmánuði hafa verið fleiri en hér er greint frá.

Mynd tekin úr mánaðarskýrslu HMS.

HMS segir að lýsir ofangreindum tölum sem vísbendingum um viðsnúningi á fasteignamarkaði. Markaðurinn hafi róast á fjórða ársfjórðungi en velta kaupsamninga á föstu verðlagi dróst saman um tæp 2% á höfuðborgarsvæðinu og um rúm 7% í nágrenni höfuðborgarsvæðisins milli ára.

Annars staðar á landinu jókst veltan um 18% milli ára sem HMS rekur að mestu leyti til tveggja kaupsamninga þar sem margar fjölbýlisíbúðir voru keyptar í hvorum samningi.

HMS segir að samhliða minni umsvifum á húsnæðismarkaði hafi dregið úr kaupþrýstingi, en íbúðum sem seldust á yfirverði fækkaði hlutfallslega fjórða mánuðinn í röð í desember eftir að hafa náð hámarki í ágústmánuði. Alls seldust 13,5% íbúða yfir ásettu verði í desember.

„Ýmislegt kann að skýra minni umsvif á íbúðamarkaði síðustu mánuði. Meiri umsvif voru á fasteignamarkaði á fyrri hluta ársins, sér í lagi í apríl og maí tengd atburðunum í Grindavík, bæði vegna uppkaupa fasteignafélagsins Þórkötlu og vegna íbúðakaupa þeirra sem áttu lögheimili í Grindavík.

Vaxtalækkunarferli Seðlabankans hófst í október á síðasta ári en HMS telur að væntingar um frekari lækkun vaxta valdi því að einhverjir haldi að sér höndum, fresti íbúðakaupum og bíði þess að vextir lækki enn frekar.“