Landsvirkjun mun hvorki leggja áherslu á að fá nýja stórnotendur í málmiðnaði eða hrávöruvinnslu í viðskipti né heldur leggja áherslu á útflutning orku. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu upp úr haustfundi Landsvirkjunar sem haldinn var í morgun.

Í hæsta forgangi hjá Landsvirkjun sem fyrr væri almenn notkun raforku og innlend orkuskipti, þar sem sérstaklega er stutt við skuldbindingar þjóðarinnar í loftslagsmálum. Því yrði að segja nei við nýjum stórnotendum í málmiðnaði og hrávöruvinnslu og nei við verkefnum sem lúta að útflutningi orku með rafeldsneyti eða sæstreng.

„Í fyrsta skipti í sögu Landsvirkjunar þarf að segja nei við fjölmörgum góðum verkefnum. Orkan er einfaldlega ekki til,“ sagði Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar á haustfundinum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hóf fundinn með ávarpi og rakti stöðuna í orkumálum í Evrópu. Sagði hann aldrei áður verið ljósara mikilvægi þess að vera ekki bara óháður jarðefnaeldsneyti heldur að vera ekki háður öðrum ríkjum í orkumálum.

Guðlaugur sagði að orkuöryggi fælist ekki eingöngu í aukinni orkuvinnslu heldur einnig fjölbreyttari kostum, á borð við vindorku. Nauðsynlegt væri að afla nýrrar, grænnar orku. „Þar treystum við ekki síst á Landsvirkjun,“ sagði ráðherra, sem jafnframt rakti ýmis þau verkefni sem væru í vinnslu á vegum ráðuneytis hans, ýmissa stofnana, sveitarfélaga og fyrirtækja.

Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu vísaði til þess á fundinum að á síðustu misserum hefði verið endursamið við stærstu viðskiptavini Landsvirkjunar. Þeir greiði nú talsvert hærra verð fyrir orkuna en áður. Þá benti Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri samfélags og umhverfis að Landsvirkjun væri með eitt lægsta kolefnisspor í heimi í orkuvinnslu. Fyrirtækið ætli á næstu árum að draga úr losun frá starfsemi sinni svo nemur 2,5% af heildarskuldbindingum þjóðarinnar.