Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) taka undir með Samtökum atvinnulífsins og leggjast gegn frumvarpi atvinnuveganefndar Alþingis um forgangsorku í núverandi mynd.
Samtök iðnaðarins hafa einnig lagst gegn frumvarpinu sem hefur vakið hörð viðbrögð en SI segja frumvarpið færa Ísland 20 ár aftur í tímann.
Í umsögn sinni sögðu SI einnig Orkustofnun og Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra vanhæfa til að miðstýra raforkunotkun líkt og frumvarpið leggur til.
SFS bætir í að veki sérstaka athygli á sérstöðu landeldis þegar kemur að því að tryggja afhendingaröryggi raforku.
„Örugg og stöðug afhending raforku er grundvallarforsenda þess að unnt sé að ala fisk á landi. Raforka nýtist við ýmsa þætti starfseminnar en er fyrst og fremst nauðsynleg til að tryggja stöðuga dælingu vatns og innflæði súrefnis sem er forsenda þess að eldisfiskur haldi lífi. Raforkuþörf í landeldi er almennt stöðug yfir eldistímann sem gerir það að verkum að svigrúm landeldisfyrirtækja til að bregðast við tímabundnum skerðingum á afhendingu raforku er verulegum takmörkunum háð,“ segir í umsögn SFSí samráðsgáttinni.
Samtökin segja að til að gæta að velferð eldisfiska sé því óhjákvæmilegt að grípa til notkunar varaafls við minnstu truflanir eða skerðingar. Veiturafmagn í landeldisstöðvum er almennt baktryggt með dísilvaraaflsstöðvum ef raforkuafhending inn til stöðvarinnar skerðist tímabundið.
„Varaaflstöðvar eru þó almennt ekki hannaðar til að sinna öðru en lágmarksraforkuþörf og geta ekki talist raunhæfur kostur til að bregðast við umfangsmiklum eða langtímaskerðingum. Hafa ber í huga að áform um landeldi eru mislangt á veg komin en heildstætt má segja að íslenskt landeldi sé í uppbyggingarfasa og að fjárfestingarþörf sé mikil. Þó að ekki sé endilega fyrirséð að landeldisfyrirtæki muni teljast til stórnotenda innan gildistíma fyrirhugaðra laga er ljóst að uppi eru áform um landeldi sem munu falla þar undir til lengri tíma litið,“ segir enn fremur í umsögn SFS.
„Hætt er við því að óvissa um afhendingaröryggi raforku til stórnotenda til lengri tíma litið muni draga úr fjárfestingarvilja í landeldi og hægja verulega á þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er, með tilheyrandi samfélagslegu tjóni.“
Að lokum telja samtökin að til staðar þurfi að vera skýr heimild til að veita undanþágu frá skerðingu til stórnotenda sem 1) fyrirsjáanlega verða fyrir verulegu tjóni komi til skerðinga og/eða 2) þurfa að grípa til umfangsmikillar notkunar varaafls til þess að bjarga verðmætum og gæta að dýravelferð.