Breiðfylking stéttarfélaga sem eiga nú í viðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA) um kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að SA telji tillögur stéttarfélaganna of kostnaðarsamar.

Stéttarfélögin segja að SA hafi í staðinn lagt fram tillögur „sem eru langt neðan við þær hóflegu hækkanir sem Breiðfylkingin lagði til í upphafi viðræðna“.

„Heildarkostnaðarmat tillagna Breiðfylkingarinnar er vel innan þeirra marka sem Seðlabankinn gerir ráð fyrir í Þjóðhagsspá sinni til næstu þriggja ára. Nánast er einsdæmi að verkalýðshreyfingin hafi í upphafi kjaraviðræðna lagt fram tillögur sem eru innan þeirra marka,“ segir í tilkynningunni.

Undir yfirlýsinguna skrifa Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, Eiður Stefánsson, formaður samninganefndar Landssambands íslenzkra verzlunarmanna og Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar.

Breiðfylkingin segist hafa kynnt í lok desember tillögur sínar um tilteknar launahækkanir í þriggja ára kjarasamningi. Að sögn stéttarfélaganna voru tillögurnar „mjög hófsamar“ og byggðar á fyrirmynd Lífskjarasamningsins frá árinu 2019. Á grunni þessara tillagna hafi skapast jákvæðni sem báðir samningsaðilar tjáðu í fjölmiðlum.

„Síðan þá hefur farið fram tímafrek og á köflum mjög tæknileg umræða milli samningsaðila um reiknilíkön. Í þeim umræðum hafa SA smátt og smátt fjarlægt sig frá upphaflegum, jákvæðum viðbrögðum sínum.“

Stéttarfélögin segja að í á aðra viku hafi „hvorki gengið né rekið í viðræðunum vegna andstöðu SA við launatillögur Breiðfylkingarinnar“.

„Breiðfylkingin vill hvetja SA til að snúa af þessari braut og taka skref fram á við, ekki til baka. Mikil ábyrgð hvílir á samningsaðilum að ganga í takt að settu marki. Það markmið er heildstæð kjarasamningagerð, studd af löngu tímabærum umbótum á tilfærslukerfum hins opinbera, þar sem hóflegar krónutöluhækkanir verði forsenda lækkunar á verðbólgu og vöxtum.“

Stéttarfélögin segjast fyrir sitt leyti hafa brugðist við kalli samfélagsins um ábyrga kjarasamningagerð.