Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors tilkynnti í byrjun vikunnar að öll framleiðsla rafknúinna ökutækja við verksmiðju fyrirtækisins í Michigan-fylki yrði seinkuð í að minnsta kosti eitt ár.

GM segir að framleiðsla á næstu kynslóð rafbíla sinna í Orion Assembly verksmiðjunni í úthverfi Detroit muni hefjast síðla árs 2025, frekar en á næsta ári eins og upprunalega var áætlað.

Ákvörðun fyrirtækisins er sögð vera enn eitt dæmi um þá erfiðleika sem bílaframleiðendur glíma við þegar kemur að rafbílum, sem geta verið mjög dýrir í bæði framleiðslu og verslun. Innleiðing þeirra og aukin notkun hefur heldur ekki verið eins hröð og margir bjuggust við.

Að sögn talsmanns GM tengist ákvörðunin ekki yfirstandandi samningaviðræðum fyrirtækisins við verkalýðsfélagið United Auto Workers Union.

Í janúar 2022 tilkynnti GM að það myndi fjárfesta 4 milljarða dala til að gjörbreyta Orion Assembly verksmiðjunni til að geta alfarið hafið framleiðslu á rafbílum. Á þeim tíma sagði GM að endurskipulagning verksmiðjunnar fæli í sér umtalsverða stækkun og skipulagsbreytingu.