Á stjórnarfundi Strætó í október lýstu stjórnendur því að umferð hefði aukist það mikið að það væri farið að hafa veruleg áhrif á stundvísi í leiðakerfinu. Í glærukynningu á fundnum má finna tölfræði um seinkanir á tímabilinu 1. september til 15. október á árunum 2022 til 2024.
Á þessu tímabili í ár voru vagnar Strætó seinir í 23,8% tilfella yfir allan daginn, samanborið við 16,7% í fyrra og 15,5% árið 2022. Sé einungis miðað við álagstímann frá 15:30-18:00 á téðu tímabili þá voru vagnar Strætó seinir í 46,6% í tilfella í ár samanborið við 35,4% í fyrra og 33,1% árið 2022.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/138971.width-1160.png)
![](http://vb.overcastcdn.com/images/138972.width-1160.png)
Aukin umferð endurspeglist í því að bifreiðum á höfuðborgarsvæðinu hafi fjölgað um 20 þúsund frá árinu 2019. Á sama tímabili hafa íbúum fjölgað um 15 þúsund.
„Strætó er að mestu leyti að keyra í blandaðri umferð og þá hefur þetta auðvitað töluverð áhrif,“ segir Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, í viðtali í Viðskiptablaði vikunnar.
„Mikið af okkar kerfi gengur út á það að viðskiptavinir geti náð skiptingum á stórum skiptistöðum. Það er bara að ganga mjög illa upp í svona mikilli umferð. Vagnar eru oft seinir inn og hinn vagninn er þá farinn. Það hefur ekki góð áhrif á viðskiptavini okkar eðlilega.“
Lækkun hámarkshraða af hálfu sveitarfélaga og skortur á sérakreinum hafi einnig stuðlað að vandanum.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/86528.width-1160.jpg)
Skoða ætti aukinn forgang
Í viðtalinu, sem nálgast má í heild sinni hér, ræðir Jóhannes um hvernig áformuð þjónustuaukning gæti bætt stöðuna og aukið áreiðanleika Strætó.
Strætó telur að einnig þurfi að skoða að auka forgang á umferðarljósum enn frekar. Strætó er í dag með forgangsljós á nokkrum gatnamótum. Vagnar Strætó fá einnig forgang á ákveðnum stöðum með þeim hætti að græn ljós loga áfram í örfáar sekúndur til viðbótar þannig að þeir nái yfir.
„Við höfum áhuga á því að það verði skoðað að Strætó fengi meiri forgang á ljósum þannig að þegar hann er að nálgast þá skipti ljósin hraðar yfir í grænt fyrir Strætó og þá umferð sem er á sömu leið og hann. Það er bara eitthvað sem er verið að skoða, og er líka hluti af þessum samgöngusáttmála,“ segir Jóhannes.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaði vikunnar.