Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður SKEL fjárfestingarfélags og fyrrverandi forstjóri Baugs, viðurkennir að hafa farið of geyst á fyrri hluta viðskiptaferilsins í nýjasta hlaðvarpsþætti Snorra Björns.
„Ætli maður hafi ekki spilað fyrstu 45 mínúturnar ansi fast. Seinni 45 mínúturnar verða aðeins rólegri og ætli maður dragi sig ekki aðeins aftar á völlinn, þó aldrei svo aftarlega að maður sjái ekki markið hinum megin.“
Hann segir mikinn tíma hafa farið í það á sínum tíma að vera með yfirsýn yfir öll þau fyrirtæki og verkefni sem heyrðu undir Baug Group. Það hafi bitnað á fjölskyldunni. „Við vorum að brasast í ótrúlega mörgum hlutum sem þýddi að maður bjó í flugvél. Þá var maður minna með fjölskyldunni en maður hefði kosið eftir á að hyggja. Jafnvægið þarf að vera betur í lagi í seinni hálfleik og maður þarf að fara rólegra í hlutina,“ segir Jón.
Hann segir fjölda fyrirtækja í eigu Baugs hafa á einum tímapunkti verið kominn upp í áttatíu talsins, sem Jón Ásgeir segir hafa verið heldur yfirdrifið. „Einn vinur minn sagði mér að ég ætti í mesta lagi að eiga sjö fyrirtæki, að það sé „maxið“. En ef þú selur eitt þá kaupirðu alltaf eitt stærra. Þú ferð samt aldrei yfir þessa heilögu tölu sjö. Mér fannst það ágætis input,“ segir Jón Ásgeir.
Mikilvægt að hafa gaman
Jón segir mikilvægt að hafa gaman af því sem maður er að gera og að maður sé ekki í hlutunum bara til að græða peninga.
„Ef þú ert í einhverju verkefni sem þú ert bara að gera því þú ætlar að græða peninginn, þá er peningurinn búinn að taka yfir. Ef þú ert hins vegar að velja þér verkefni sem þú hefur gaman af, eins og ég hef reynt að gera, þá finnst mér peningurinn vera bónus í því. Þegar peningauppskeran kemur er það svona fín hliðarafurð.“
Hann tekur undir það að líkja megi þessu við einhvers konar íþrótt, þar sem þú setur þér markmið og reynir að hafa gaman af hlutunum. „Þú kemur að fyrirtæki og setur þér ákveðin markmið. Það er alveg eins og að fara út á völlinn, þú setur þér ákveðin markmið fyrir leik hvað þú ætlar þér að ná út úr þessu og þú verður að hafa gaman af leiknum. Ég trúi því að ef þú hefur ekki gaman af því sem þú ert að gera að þá verði uppskeran slök.“
Aðspurður hvort hann hafi einhvern tímann hætt að finnast verkefni skemmtileg segir hann að honum hafi ekki fundist fjölmiðlareksturinn nægilega gefandi undir lokin. „Það var eitt af fyrstu skiptunum sem manni fannst ekki lengur gaman í einhverju verkefni.“
2 vikur gaman, 50 vikur hausverkur
Jón segist ekki hafa haft sérstaklega gaman af snekkjum og einkaþotum, eða „stóru leiktækjunum“ eins og hann kallar þau. Þau séu fín í örfáar vikur á ári, en að menn festist stundum í þeim.
„Glamúrinn við sumt af þessu er ofmetinn. Það er gaman í tvær vikur á ári en hausverkur í 50 vikur. Það er ekki gott hlutfall. En maður getur allavega hallað sér aftur og sagt: Ég er búinn að prófa þetta og veit kostina og gallana,“ bætir Jón Ásgeir við.