Tæknirisinn Apple hefur loksins stokkið á gervigreindarvagninn en greint var frá tíðindunum á árlegri forritararáðstefnu fyrirtækisins í Kaliforníu í vikunni. Tim Cook, forstjóri Apple, boðaði nýtt og „persónumiðaðra“ spunagervigreindarforrit, Apple Intelligence, sem á að koma inn með nýrri stýrikerfisuppfærslu síðar á árinu.

Þá var greint frá samstarfi við OpenAI, framleiðanda ChatGPT, og var Sam Altman, forstjóri OpenAI, meðal viðstaddra á ráðstefnunni. Athygli vakti þó að hann var ekki fenginn upp á svið fyrir kynninguna og hefur lítið sem ekkert tjáð sig um samstarfið opinberlega.

Apple er með seinni skipum þegar kemur að gervigreindarvegferðinni og hefur hlutabréfaverð fyrirtækisins goldið fyrir það en markaðsaðilar binda engu að síður vonir við nýjasta útspilið.