Héraðs­dómur Reykja­víkur hafnaði í dag að fella niður 76,5 milljóna króna sekt fjár­mála­eftir­lits­nefndar Seðla­banka Ís­lands á Símann hf. í tengslum við upp­lýsinga­gjöf vegna sölunnar á Mílu ehf.

Dómurinn felldi niður máls­kostnað en sam­kvæmt til­kynningu til Kaup­hallarinnarmun Síminn skoða for­sendur dómsins og meta hvort honum verði áfrýjað til Lands­réttar.

Fjár­mála­eftir­lits­nefndin sektaði Símann í byrjun nóvember í fyrra á grund­velli þess að stofnunin taldi að Síminn hefði ekki birt ætlaðar inn­herja­upp­lýsingar eða tekið ákvörðun um frestun á birtingu á ætluðum inn­herja­upp­lýsingum þann 31. ágúst 2021, í tengslum við mögu­lega sölu á Mílu.


Síminn kærði sektina í byrjun febrúar á þessu ári en fyrir­tækið hafnaði því að hafa ekki upp­lýst markaðinn opin­ber­lega um að eig­enda­breyting á Mílu hafi komið til greina auk þess sem upp­lýst hafi verið um að félagið myndi ræða við valda aðila. Fjár­festum hefði því mátt vera ljóst að það væri mögu­legt að Míla yrði síðar seld.


„Síminn er eðli­lega ósammála stofnuninni að á þeim tíma hafi verið til staðar inn­herja­upp­lýsingar og telur að fjár­festum hafi verið haldið upp­lýstum um ferlið með fullnægjandi hætti, m.a. með opin­berri til­kynningu til kaup­hallar þann 31. ágúst 2021,“ segir í til­kynningu sem Síminn sendi frá sér í nóvember.

„Þar sem Síminn leit svo á að engum inn­herja­upp­lýsingum hafi verið til að dreifa þann 31. ágúst 2021, enda höfðu engin bindandi til­boð borist í félagið á þeim tíma, gat félagið af aug­ljósum ástæðum ekki tekið af­stöðu til frestunar upp­lýsinganna.“

Sam­keppnis­eftir­litið samþykkti kaup franska sjóðstýringarfélagsins Ardian á Mílu í septem­ber 2022.

Ardian og SKE undir­rituðu sátt um kaup Ardian á Mílu af Símanum með skil­yrðum en Síminn og Ardian náðu sam­komu­lagi um breytingar á kaup­samningnum sem fól í sér að heildar­virði Mílu í við­skiptunum lækkaði niður í 69,5 milljarða króna.

Í upp­haf­lega kaup­samningnum var kveðið á um að heildar­virði Mílu yrði 78 milljarðar króna. Eftir að Síminn og Ardian komust að sam­komu­lagi um breytingar á samningnum í júlí, sem liður í sátta­viðræðum við SKE, lækkaði kaup­verðið um 5 milljarða króna, niður í 73 milljarða. Í ljósi skil­yrða sem SKE setti lækkaði kaup­verðið aftur um 3,5 milljarða, niður í 69,5 milljarða króna.