Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag að fella niður 76,5 milljóna króna sekt fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands á Símann hf. í tengslum við upplýsingagjöf vegna sölunnar á Mílu ehf.
Dómurinn felldi niður málskostnað en samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnarmun Síminn skoða forsendur dómsins og meta hvort honum verði áfrýjað til Landsréttar.
Fjármálaeftirlitsnefndin sektaði Símann í byrjun nóvember í fyrra á grundvelli þess að stofnunin taldi að Síminn hefði ekki birt ætlaðar innherjaupplýsingar eða tekið ákvörðun um frestun á birtingu á ætluðum innherjaupplýsingum þann 31. ágúst 2021, í tengslum við mögulega sölu á Mílu.
Síminn kærði sektina í byrjun febrúar á þessu ári en fyrirtækið hafnaði því að hafa ekki upplýst markaðinn opinberlega um að eigendabreyting á Mílu hafi komið til greina auk þess sem upplýst hafi verið um að félagið myndi ræða við valda aðila. Fjárfestum hefði því mátt vera ljóst að það væri mögulegt að Míla yrði síðar seld.
„Síminn er eðlilega ósammála stofnuninni að á þeim tíma hafi verið til staðar innherjaupplýsingar og telur að fjárfestum hafi verið haldið upplýstum um ferlið með fullnægjandi hætti, m.a. með opinberri tilkynningu til kauphallar þann 31. ágúst 2021,“ segir í tilkynningu sem Síminn sendi frá sér í nóvember.
„Þar sem Síminn leit svo á að engum innherjaupplýsingum hafi verið til að dreifa þann 31. ágúst 2021, enda höfðu engin bindandi tilboð borist í félagið á þeim tíma, gat félagið af augljósum ástæðum ekki tekið afstöðu til frestunar upplýsinganna.“
Samkeppniseftirlitið samþykkti kaup franska sjóðstýringarfélagsins Ardian á Mílu í september 2022.
Ardian og SKE undirrituðu sátt um kaup Ardian á Mílu af Símanum með skilyrðum en Síminn og Ardian náðu samkomulagi um breytingar á kaupsamningnum sem fól í sér að heildarvirði Mílu í viðskiptunum lækkaði niður í 69,5 milljarða króna.
Í upphaflega kaupsamningnum var kveðið á um að heildarvirði Mílu yrði 78 milljarðar króna. Eftir að Síminn og Ardian komust að samkomulagi um breytingar á samningnum í júlí, sem liður í sáttaviðræðum við SKE, lækkaði kaupverðið um 5 milljarða króna, niður í 73 milljarða. Í ljósi skilyrða sem SKE setti lækkaði kaupverðið aftur um 3,5 milljarða, niður í 69,5 milljarða króna.