Fjarskiptastofa hefur ákveðið að sekta fjarskiptainnviðafélagið Mílu um 3 milljónir króna fyrir „ranga og ófullnægjandi upplýsingagjöf“ varðandi möguleg kaupáform eða langtímaleigu á ljósleiðaranetum.

Í tilkynningu Fjarskiptastofu segir að saknæmisstig háttseminnar hafi verið metið talsvert hátt og því hafi verið óhjákvæmilegt að leggja stjórnvaldssekt á Mílu fyrir brot á upplýsingaskyldu sinni.

Míla hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem félagið hafnar því að hafa brotið gegn upplýsingaskyldu með meintri rangri og ófullnægjandi upplýsingagjöf til Fjarskiptastofu. Míla hefur nú til skoðunar að kæra ákvörðun Fjarskiptastofu til úrskurðarnefndar um fjarskiptamál.

Hefði átt að upplýsa um áformuð kaup á ljósleiðaraneti í eigu Skaftárhrepps

Í tilkynningu Fjarskiptastofu kemur fram að stofnunin beindi fyrirspurn til Mílu og annarra fjarskiptafélaga í ágúst 2023 um mögulega kaupáform og langtímaleigu á ljósleiðaranetum fyrir markaðsgreiningar stofnunarinnar.

Míla óskaði eftir nánari skilgreiningu á gagnabeiðninni og átti félagið og Fjarskiptastofa í samskiptum næstu daga um upplýsingabeiðnina. Stofnunin segir að svo virðist sem leiðbeiningar sínar hafi ekki skilað árangri.

Því taldi Fjarskiptastofa í tölvupósti frá 25. ágúst 2023 mikilvægt að skilgreina nákvæmlega hvað fælist í orðalagi um „kaupáform“, auk þess að enn var áréttað að beiðnin væri almenn og tæki til kaupa á öllum ljósleiðaranetum. Fjarskiptastofa áréttaði einnig í sama tölvupósti heimildir stofnunarinnar til að leggja á stjórnvaldssekt.

„Míla hf. staðfesti móttöku á tölvupósti stofnunarinnar og tjáði að málið yrði tekið til skoðunar, en engin frekari svör bárust hins vegar í framhaldinu.“

Þann 15. september 2023 tilkynnti Míla svo Fjarskiptastofu að sveitastjórn Skaftárhrepps hefði deginum áður samþykkt kauptilboð félagsins í ljósleiðaranet í eigu sveitarfélagsins og falið sveitarstjóra að undirrita samning við félagið.

„Í ljósi þess að þessi viðskipti virtust eiga sér stað á sama tíma eða mjög nálægt þeim tíma sem Mílu hf. var skylt að upplýsa Fjarskiptastofa um öll áformuð kaup á ljósleiðaranetum taldi stofnunin fullt tilefni til þess að hefja rannsókn á því hvort félagið hefði mögulega brotið gegn upplýsingaskyldu sinni.“

Fjarskiptastofa segir að eftir að hafa yfirfarið gögn sem Míla hf. afhenti hafi m.a. komið í ljós formlegt bréf félagsins frá því í apríl 2023 til sveitarfélagsins þar sem lýst var yfir áhuga á viðræðum um kaup á ljósleiðaranetinu og síðan formlegt kauptilboð til sveitarfélagsins frá því í júlí 2023.

„Það var mat Fjarskiptastofu að upplýsingar um þessi viðskipti féllu ótvírætt undir þá gagnabeiðni sem stofnunin hafði beint að Mílu hf. í ágúst það ár […] Mílu hf. hafi ekki getað dulist að félaginu hafi verið skylt að upplýsa Fjarskiptastofu um þessi viðskipti sem þá voru í bígerð.“

Uppfært: Fréttin var uppfærð eftir að Míla sendi frá sér yfirlýsingu.