Portúgalska þingið samþykkti nýverið lög sem banna stjórnendum fyrirtækja, hvar starfa tíu manns eða fleiri, að senda starfsfólki sínu starfstengd skilaboð eða vinnupósta utan hefðbundins vinnutíma. Löggjöfinni er ætlað að hjálpa starfsfólki að hvíla sig utan vinnutíma og stuðla að aukinni samveru með fjölskyldunni.
Samkvæmt frétt BBC um málið kveða lögin á um að heimilt verði að beita fyrirtæki stjórnvaldssektum brjóti það gegn banninu. Þá er að finna heimild í lögunum handa foreldrum að ákveða einhliða að sinna vinnu sinni í fjarvinnu, sé þess kostur, þar til að börn þeirra hafa náð átta ára aldri. Þá munu fyrirtæki þurfa að taka þátt í kostnaði starfsfólks sem hlýst af því að vinna heima.
Nokkrar breytingar voru gerðar á frumvarpinu áður en það varð að lögum en í upphaflegri útgáfu þess var til að mynda að finna heimild handa starfsfólki til að slökkva á öllum vinnutengdum tækjum meðan það væri utan vinnu.
„Við teljum Portúgal vera eitt besta landið í heiminum til að sinna starfi sínu í fjarvinnu og hefur margt starfsfólk kosið að flytja hingað af þeim sökum. Við viljum halda áfram að lokka það hingað,“ hefur
BBC
eftir Önu Mendez Godinho, félags- og vinnumálaráðherra landsins. Heimavinna hafi reynst vel en nauðsynlegt sé að koma föstu regluverki á hana.