Hagar, móðurfélag Bónus, Hagkaups og Olís, keypti 49% hlut í Djús, sem rekur veitingastaði undir merkjum Lemon, á 156 milljónir króna fyrir rúmu ári síðan. Djús var því metið á 318 milljónir í viðskiptunum. Þetta má lesa út úr ársreikningi 2021 hjá Spicy ehf., einum hluthafa Djúss.
Fyrir kaup Haga var Lemon í 53% eigu Sveinbergs Gíslasonar, 24% eigu Snorra Arnars Viðarssonar, 19% eigu Jóhönnu Soffíu Birgisdóttur, framkvæmdastjóra Lemon, og 4% eigu Unnar Guðríðar Indriðadóttur markaðsstjóra. Þau eiga í dag samtals 51% í fyrirtækinu á móti Högum.
Staðir Lemon eru í dag níu talsins, þar af fimm staðir á höfuðborgarsvæðinu og fjórir á Norðurlandi. Eftir kaup Haga hefur Lemon opnað staði á nokkrum þjónutustöðvum Olís, þar á meðal í Norðlingaholti og Grafarvogi auk þess sem „Lemon míní“ opnaði í Borgarnesi á dögunum. Þá kom fram í fjárfestakynningu Haga í síðustu viku að Lemon muni opna nýjan sölustað í Hagkaup í Garðabæ á næstu vikum.
Velta Lemon nam 475 milljónum króna árið 2021 og hækkaði um 30% frá árinu áður. Hagnaður félagsins nam 34,7 milljónum króna á árinu samanborið við 36,4 milljóna króna hagnað árið 2020.
Eignir félagsins voru bókfærðar á 58 milljónir í lok árs 2021 og eigið fé var 26,5 milljónir.