Sóltún 4 ehf., félag í eigu Sóltúns heilbrigðisþjónustu ehf. seldi á síðasta ári lóð að Sóltúni 4 til Fjallasólar ehf., félags í eigu eignarhaldsfélagsins Langasjávar.

Langisjór er í eigu „Matasystkinanna" svokölluðu; þeirra Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra.

Kaupverðið á lóðinni að Sóltúni 4 var 1,3 milljarðar króna og nam söluhagnaður Sóltúns 515,6 milljónum króna. Á lóðinni stendur til að byggja fjölbýlishús með allt að 79 íbúðum á 5 til 6 hæðum.

Við hlið Sóltúns 4, á Sóltúni 2, stendur hjúkrunarheimilið Sóltún. Fasteignafélagið Reginn keypti í byrjun árs 2021 90% hlut í félaginu Sóltún fasteign ehf. sem á fasteign hjúkrunarheimilisins Sóltúns við samnefnda götu af félaginu Öldungi ehf., sem á enn 10% hlut í félaginu.

Í ársreikningi Regins kemur fram að kaupverðið að Sóltúni 2 hafi verið 3,8 milljarðar króna, og að fullu fjármagnað með lánsfé.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út föstudaginn 11. ágúst.