Íslenska fyrirtækið Teledyne Gavia, sem er dótturfélag bandarísku iðnaðarsamsteypunnar Teledyne, hefur undanfarin ár selt fjarstýrða kafbáta til notkunar hjá rússneskum varnarmálayfirvöldum samkvæmt öruggum heimildum Viðskiptablaðsins. Heimildir blaðsins herma að bátarnir hafi verið seldir þangað í gegnum rússneskan birgja og að þeir hafi meðal annars verið ætlaðir til tundurduflaleitar.
Teledyne Gavia vildi ekki tjá sig um stöðu þessara viðskipta þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir því, en fyrirtækið staðfesti að það hefði viðskiptavin í Rússlandi sem vildi njóta trúnaðar um viðskipti sín.
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er íslenskum fyrirtækjum bannað að selja Rússum hergögn og vörur með tvíþætt notagildi. Þá eru takmarkanir á viðskiptum með tækni í þýðingarmiklum geirum á borð við olíuvinnslu. Mat utanríkisráðuneytisins er að Teledyne Gavia ehf. sé eina íslenska fyrirtækið sem þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi kynnu að snerta.
Nánar er fjallað um útflutning Íslands til Rússlands í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .