Hagnaður Iðnmarks, sem framleiðir meðal annars Stjörnusnakk og Stjörnupopp, nam 87 milljónum króna árið 2021, samanborið við 106 milljónir árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi.
Velta félagsins var svipuð á milli ára og nam 448 milljónum á síðasta ári. Í ársreikningi er búist við að næsta ár verði sambærilegt í veltu.
Útgjöld félagsins jukust um 10% á milli ára og námu 358 milljónum á síðasta ári. Þar af jókst launakostnaður um 26%, fór úr 100 milljónum í 126 milljónir króna en ársverk voru óbreytt 9.
Eignir námu 1.075 milljónum og jukust lítillega á milli ára. Eigið fé nam 950 milljónum og var eiginfjárhlutfallið 88,3%.
Greiddur var 100 milljóna króna arður til hluthafa á síðasta ári. Félagið var stofnað árið 1988 af hjónunum Dagbjarti Björnssyni og Eyrúnu Sigurjónsdóttur. Þau eiga 30% hlut í félaginu hvort um sig í gegnum Vesturás ehf. Þá eiga börn þeirra hinn 40% hlutinn í félaginu. Þar af á framkvæmdastjórinn Sigurjón Dagbjartsson 20% hlut, Jóhanna Dagbjartsdóttir 12% og Ingibjörg Dagbjartsdóttir 8% hlut.