Sala á rafbílum og tengiltvinnbílum í Kína var meiri en sala á bensínbílum í fyrsta sinn í síðasta mánuði. Samkvæmt WSJ voru 51,1% af öllum nýseldum fólksbílum rafbílar eða tvinnbílar.

Þá hefur sala á slíkum bílum aukist um 37% frá því í fyrra en í júlí seldust 878 þúsund raf- og tvinnbílar, miðað við 840 þúsund bensínbíla sem er 26% lækkun.

Smásala fólksbíla í Kína hefur þó dregist saman um 2,8% síðan í fyrra og minnkaði salan í júlí einnig um 2,6% miðað við júní. Neytendur hafa þó haldið áfram að kaupa rafbíla, þá sérstaklega vegna fjárhagslegra ívilnana frá stjórnvöldum.

Kínverjar fluttu út 376.000 bíla í júlí, sem er 20% aukning milli ára. Útflutningur rafbíla jókst þá einnig um 1,3% og spáir bílagreiningarsamband Kína (e. CPCA) að ágúst verði stöðugur.