Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) auglýsti í gær húsnæði Háskólans á Hólum, sem skólinn fékk að gjöf frá útgerðarfélaginu FISK Seafood árið 2022, til sölu. Húsnæðið var upprunalega byggt sem fiskeldisstöð en skólinn nýtti svo húsnæðið undir rannsóknarvinnu.

Samkvæmt skrám HMS samanstendur lóðin af fiskeldisstöð, sem byggð var árið 1980, kerskála, 13 eldiskerum og þremur vatnsmiðlunum.

Fasteignamat lóðarinnar nemur 120 milljónum króna og brunabótamat hljóðar upp á 554,5 milljónir króna.

Aðstaðan hýsti áður bleikjueldi Hólalax í Hjaltadal, sem var í eigu FISK Seafood, en sú starfsemi var síðan lögð niður. Félagið gaf síðan háskólanum aðstöðuna ásamt fjárstyrk til þess að flytja búnað deildarinnar og koma honum fyrir í nýju húsakynnunum.

Aðstaðan hýsti áður bleikjueldi Hólalax í Hjaltadal sem var í eigu FISK Seafood.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, segir í samtali við Viðskiptablaðið að stöðin hafi fyrst og fremst verið hönnuð fyrir framleiðslu. Hún henti illa í nútímakennslu og rannsóknum, sérstaklega þar sem stöðin notast einungis við ferskvatn.

Hólmfríður tekur þó fram að gjöfin hafi verið skólanum mjög verðmæt. Hún bætir við að með því að selja stöðina nú tveimur og hálfu ári síðar sjái háskólinn fram á að fá pening til að byggja nýja stöð á Sauðárkróki.

„Þar verður ný stöð sem verður með aðgang að bæði sjó og fersku vatni. Bygging á nýju lagareldishúsi á Sauðárkróki er nú þegar í fjárlögum 2025 og við gerum ráð fyrir að sú stöð verði tilbúin í ársbyrjun 2027.

Frumathugun er búin og FSRE er í þessum töluðu orðum að útbúa gögn til að geta boðið verkið út. Þannig við gerum ráð fyrir að verkið fari af stað í haust og þá verður byggt tæplega þúsund fermetra kennslu- og rannsóknarhúsnæði þar sem verður bæði heitt vatn, kalt vatn og sjór.“

Rektor Háskólans á Hólum segir að stöðin henti illa í nútímakennslu og rannsóknum, sérstaklega þar sem stöðin notast einungis við ferskvatn.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sveitarfélagið mun sjá um að leggja sjólögn að húsnæðinu og lýsir Hólmfríður miklum spenningi á Sauðárkróki yfir þeirri uppbyggingu sem þar er að eiga sér stað. Nýir þekkingargarðar munu til dæmis rísa á næstu árum skammt frá leikskólanum Ársölum.

Um er að ræða samstarfsverkefni Háskólans á Hólum, Hátækniseturs Íslands, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV.

Garðarnir munu þjóna sem miðstöð nýsköpunar á Norðurlandi vestra.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Garðarnir munu þjóna sem miðstöð nýsköpunar á Norðurlandi vestra en Hólmfríður segir að þar verði bæði skrifstofur og hótel. Bærinn mun því taka á sig nýja mynd á komandi árum með nýjum görðum og nýrri fiskeldisstöð fyrir rannsóknarvinnu.

„Þetta hús verður einstakt fyrir lagareldi almennt og verður svipað og aðstaðan sem við vorum með hjá FISK Seafood. Nú getum við hins vegar farið að byggja upp staðbundna þekkingu og verður þekkingariðnaður okkar stóriðja.“

FISK Seafood, sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, hefur lengi stutt við bakið á skólanum en Fiskeldis- og fiskalíffræðideild háskólans notaðist áður við aðstöðu félagsins á Sauðárkróki.