Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrituðu í dag samning um sölu á forgangsorku til fjarvarmaveitna á Vestfjörðum næstu fjögur árin.
Með sölunni verður hægt að reka fjarvarmaveiturnar án þess að reiða sig á olíu sem varaafl þegar afhending raforku er skert. Í nýjum samningi eru heimildir til skerðinga en þær eru takmarkaðar við fjóra daga en ekki 120 líkt og í eldri samningi.
Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrituðu í dag samning um sölu á forgangsorku til fjarvarmaveitna á Vestfjörðum næstu fjögur árin.
Með sölunni verður hægt að reka fjarvarmaveiturnar án þess að reiða sig á olíu sem varaafl þegar afhending raforku er skert. Í nýjum samningi eru heimildir til skerðinga en þær eru takmarkaðar við fjóra daga en ekki 120 líkt og í eldri samningi.
„Samningurinn er mikilvægur þáttur í orkuskiptum á Vestfjörðum og er án efa stærsta skref sem Orkubú Vestfjarða hefur tekið til að ná kolefnishlutleysi. Þótt samningurinn leysi ekki rekstrarvanda fjarvarmaveitnanna að fullu þá skapar hann fyrirtækinu andrými til að vinna að þeim lausnum sem nú eru á teikniborðinu varðandi nýtingu þess jarðhita sem fundist hefur á Ísafirði og á Patreksfirði með hjálp varmadælna,“ segir Elías Jónatansson, forstjóri OV.
Samningnum er ætlað að brúa bilið á meðan Orkubú Vestfjarða þróar veiturnar þannig að þær geti nýtt þann jarðhita og bætt raforkunýtingu með varmadælum.
Orkubúið hefur skoðað framtíðarrekstur fjarvarmaveitna á Vestfjörðum og komist að þeirri niðurstöðu að þessi blandaða leið jarðvarmanýtingar og varmadælna henti best. Umbreytingin sem fram undan er dregur þannig úr þörf fyrir raforku og tryggir rekstur veitnanna til lengri tíma.
„Það er ákaflega ánægjulegt að hafa náð þessu mikilvæga samkomulagi við Orkubú Vestfjarða. Orkubúið hefur metnaðarfull áform um þróun fjarvarmaveitnanna í átt að kolefnishlutleysi og Landsvirkjun styður þá framtíðarsýn. Það er von okkar að þessi samningur marki upphaf fullra orkuskipta fjarvarmaveitna um allt land,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.