OA eignarhaldsfélag, sem er í jafnri eigu Andra Þórs Guðmundssonar forstjóra Ölgerðarinnar og Októ Einarssonar, fráfarandi stjórnarformanns, hefur selt helming allra hluta sinna í Ölgerðinni til fjárfestingafélagsins Bóksals ehf. Greint er frá þessu í tilkynningum til Kauphallarinnar í morgun.
Bóksal ehf. kaupir 158.181.521 hluti, eða um 5,6% hlut, í Ölgerðinni af OA eignarhaldsfélagi. Gengið í viðskiptunum var 18,725 krónur á hlut og kaupverðið var því tæpir 3 milljarðar króna.
Eigendur Bóksals eru hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir. Við kaupin eignast Bóksal 5,6% hlut í Ölgerðinni en fyrir átti félagið 4,71% hlut. Sindrandi, sem einnig er félag í eigu Boga og Lindu, á 10,08% hlut og samtals nemur eignarhlutur hjónanna 20,4% og er um 10,8 milljarðar króna að markaðsvirði.
OA eignarhaldsfélag mun áfram eiga 5,6% hlut í Ölgerðinni. Fyrirhugað er að eignarhald OA eignarhaldsfélags breytist með þeim hætti að Andri eignist 75% hlut á móti 25% hlut Októ.
Bogi býður sig fram til stjórnar Ölgerðarinnar
Októ Einarsson tilkynnti í gær að hann væri að kveðja Ölgerðina eftir 22 ár sem stjórnarformaður félagsins. Bogi Þór bjóða sig fram í stjórn á næsta aðalfundi félagsins.
„Bogi Þór og Linda Björk hafa stutt við Ölgerðina í orði og á borði allt frá árinu 2016 og ég hlakka til áframhaldandi samstarfs við þau. Við deilum sömu sýn á framtíð Ölgerðarinnar og þau ótal tækifæri sem blasa við á fjölmörgum sviðum. Á sama tíma þakka ég Októ fyrir afar ánægjulegt og árangursríkt samstarf. Hann er enn hluthafi í Ölgerðinni og fyrirtækið nýtur þekkingar hans og reynslu áfram,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
„Það er afar ánægjulegt að hafa gengið frá þessum kaupum, enda fá fyrirtæki eins spennandi og öflug og Ölgerðin. Vöxtur þess og viðgangur síðustu ár eru dæmi um góða stjórnun og rekstur, hágæða vöruúrval og nýsköpun og ég hlakka til að takast á við þau fjölmörgu skemmtilegu verkefni og tækifæri sem bíða Ölgerðarinnar. Um leið vil ég þakka Októ fyrir sín störf fyrir Ölgerðina og ég veit að hann verður félaginu áfram innan handar til ráðgjafar,“ segir Bogi Þór Siguroddsson, annar eiganda Bóksals.