Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffett, seldi 390 milljónir hluta í Apple á meira en 50 milljarða Bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi, eða sem samsvarar sjö þúsund milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Til viðbótar seldi félagið hlutabréf í öðrum félögum að andvirði 26 milljarða dala.

Berkshire Hathaway minnkaði við hlut sinn í Apple um 1% á síðustu þremur mánuðum ársins 2023, og átti í kjölfarið 5,9% hlut í Apple í árslok.

Á fyrsta ársfjórðungi seldi félagið um 13% af eignarhlut sínum í Apple og var eftirstandandi hlutur metinn á 135,4 milljarða dala á fjórðungnum samanborið við 174,3 milljarða dala í lok árs 2023.

Hlutur félagsins er nú metinn á 84,2 milljarða dala.

Berkshire Hathaway hefur í auknum mæli fært sig úr hlutabréfum í skammtíma bandarísk ríkisskuldabréf vegna hárra stýrivaxta vestanhafs.

Til viðbótar við 76 milljarða dala hlutabréfasölu á öðrum ársfjórðungi seldi félagið einnig hlutabréf að verðmæti 20 milljarða dala á fyrsta ársfjórðungi.

Félagið heldur nú á 277 milljörðum dala í reiðufé og skammtíma ríkisskuldabréfum. Vaxtatekjur félagsins námu 2,6 milljörðum dala á öðrum ársfjórðungi og 8 milljörðum dala á síðustu tólf mánuðum.