Yfir 300 listaverk úr höfuðstöðvum Danske bank eru komin á uppboð hjá danska uppboðshúsinu Bruun Rasmussen.
Um er að ræða málverk sem hafa prýtt veggi bankans áratugum saman en til stendur að vinna miklar framkvæmdir í sögulegum höfuðstöðvum Danske bank við Holmens Kanal.
Samkvæmt Børsen hafa flest listaverkin verið í byggingunni áratugum saman en húsið var reist á 18. öld sem heimili fyrir danska stórkaupmanninn Erich Erichsen.
Höfuðstöðvar Danske Bank hafa verið í húsinu í 149 ár en skrifstofurnar eru samsettar af 14 samliggjandi byggingum í dag og er þekktasti hluti byggingar Erichsen Palæ við Kongens Nytorv.
Meðal verka sem verða til sölu eru fjölmargar ljósakrónur, meðal annars ein frá 18. öld sem er metin á 100 til 150 þúsund danskar krónur eða um tvær til þrjár milljónir íslenskra króna.
Umrædd ljósakróna hefur prýtt fundarherbergi stjórnar bankans frá stofnun hans árið 1871.

© Wikimedia Commons (Wikipedia)
Þá verður einnig sögufrægur stóll eftir Hans J. Wegners sem ber heitið Jakkens hvil til sölu en stóllinn er metinn á um eina milljón íslenskra króna.
Þá eru einnig fjölmörg málverk einnig til sölu.
Öll verkin verða til sýnis þann 12. til 15. september hjá Brunun Rasmussen en hluti af verkunum fer á uppboð 16. september en síðan fara fram tvö uppboð á netinu 23. og 24. september.