Danska tæknifyrirtækið NILT hefur samþykkt 300 milljóna evra yfirtökutilboð Taiwan Radiant Opto-Electronics. Kaupverðið samsvarar um 46 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Theodor Nielsen stofnaði NILT fyrir 18 árum síðan með samnemanda sínum Brian Bilenberg í danska tækniháskólanum DTU en hann starfar enn sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
NILT sérhæfir sig í nanótækni og framleiðir afar þunnar linsur sem stærstu raftækjaframleiðendur heims nota, m.a. snjallsímaframleiðendur.
„Við þurftum frekari fjárfestingu til að skala upp framleiðsluna og auka afköst,“ segir Theodor Nielsen í samtali við Børsen. „En til þess þurftum við líka aukna þekkingu og höfum lengi leitað eftir rétta samstarfsaðilanum.“
Stofnendur fá tvo milljarða hvor
NILT sótti 217 milljónir danskra króna í hlutafjáraukningu í maímánuði á þessu ári. Fjölmargir danskir fjárfestar tóku þátt, þar á meðal Taiwan Radiant Opto-Electronics.
Samkvæmt Nielsen hófust viðræður félagsins og taívanska fyrirtækisins um mögulega yfirtöku skömmu síðar. Nielsen segir að þrátt fyrir að félagið hafi sótt fé í maí væri ljóst að til þess að halda áfram að vaxa þyrfti fyrirtækið að vera í stöðugum fjármögnunarlotum.
Af þeim sökum var rétta skrefið að samþykkja yfirtökutilboð frá fjársterkum aðila líkt og Taiwan Radiant Opto-Electronics.
Samkvæmt Børsen áttu Bilenberg og Nielsen enn um 5% hlut í fyrirtækinu hvor og fá þeir því um 100 milljónir danskra króna við söluna eða um 2 milljarðar íslenskra króna.