Íslenskar fiskvinnslur eru í harðri samkeppni við erlenda kaupendur á fiskmörkuðum hér á landi. Þeir halda uppi verðinu á mörkuðunum, flytja fiskinn óunninn til ríkja á borð við Pólland þar sem hann er unninn ásamt norskum og rússneskum fisk en að lokum er varan seld sem íslenskur fiskur.

Þetta sagði Einar Sigurðsson, stjórnarformaður Ísfélagsins, sem var gestur Gísla Freys Valdórssonar í nýjasta þætti Þjóðmála. Þar ræddi Einar um stöðuna í sjávarútveginum og um áform stjórnvalda um að tvöfalda veiðigjaldið.

Það frumvarp felur meðal annars í sér að verð á bolfiski á fiskmörkuðum hér á landi verði notað við ákvörðun veiðigjaldsins. Verðið sem notað verður til viðmiðunar við ákvörðun á veiðigjöld uppsjávarveiða mun hins vegar taka við af verðum á norskum fiskmörkuðum.

Geta ekki keppt við erlenda fiskvinnslu

Margir hafa gagnrýnt þau áform enda fari aðeins lítill hluti aflans um fiskmarkaði á síðari árum og þar af leiðandi sé verðmynduninni ábótavant.

Skjöldur Pálmason, framkvæmdastjóri Odda á Patreksfirði, segir í viðtali í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið að verðinu á fiskmörkuðum hér á landi sé haldið uppi af erlendum kaupendum. Hækkanir undanfarinna ára hafi orðið til þess að íslenskar fiskvinnslur geti ekki keppt við erlenda kaupendur og sífellt stærri hluti bolfisksaflans er fluttur óunninn til Evrópu þar sem hann er unnin með bolfiski frá Noregi og Rússlandi.

Íslenskur fiskur selst á hærri verðum

Einar sagði í Þjóðmálum að ástæða þess að erlendar vinnslur selji fisk sem íslenskan þó svo að uppistaða aflans sé frá Noregi og Rússlandi sé vegna þess að það skili hærri verðum. Það megi rekja til þeirra gæða og þess afhendingaröryggis sem samþætting veiða og vinnslu hafa skilað.

Gagnrýnendur áforma ríkisstjórnarinnar benda einmitt á að breytingarnar grafi undan þessum árangri. Breytingarnar leiði til þess að fullvinnsla íslensks bolfisksafla muni færast úr landi í ríkara mæli.

Þannig sagði Ingvi Þór Georgsson, framkvæmdastjóri Aflamiðlunar sem miðlar aflaheimildum milli útgerða, í samtali við morgunútvarp Rásar 2 á mánudag að fyrirhugaðar breytingar munu reynast sem reiðarslag fyrir smáar og meðalstórar fiskvinnslur á landsbyggðinni og einsýnt sé að fullvinnslan muni færast í auknum mæli úr landi.