Sælgætisgerðin Freyja er í söluferli samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Móðurfélagið K-102 ehf. er falt en í samstæðunni er sælgætisgerðin auk nokkurra fasteigna. Fyrr á árinu bárust fréttir um að félagið stefndi á flutning til Hveragerðis, en starfsemin hefur verið til húsa á Kársnesi í Kópavogi um árabil. Rekja má sögu sælgætisgerðarinnar Freyju til ársins 1918 en árið 1980 keyptu bræðurnir Ævar og Jón Guðmundssynir fyrirtækið og ráku það saman til árins 2013 en þá keypti Ævar bróður sinn út. Draumur, Djúpur og Rís eru meðal vörumerkja Freyju.
Freyja hagnaðist um 91 milljón króna árið 2021 samanborið við 36 milljónir króna árið áður. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði út 50 milljóna króna arður. Heildarvelta félagsins nam 1,2 milljörðum á árinu sem er 13% aukning milli ára. Óráðstafað eigið fé í árslok nam 337 milljónum króna sem svara til 42% eiginfjárhlutfalls.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið en í blaðinu er einnig fjallað um:
- Rekstraraðilar Esjuskálans færa út kvíarnar og taka við rekstri Baulunnar í Borgarfirði.
- Rætt við Stefán Brodda Guðjónsson, nýjan sveitarstjóra í Borgarbyggð.
- Sagt er frá viðræðum erlendra fjárfesta um fjárfestingu í íslenskri ferðaþjónustu.
- Ítarleg greining á umfangi veðmálastarfsemi á íslenskum íþróttum.
- Farið er yfir stöðuna á íslenskum hlutabréfamarkaði eftir mikla lækkun hlutabréfaverðs að undanförnu.
- Íslandshótel skráð á markað fyrir árslok.
- Huginn og Muninn verða á sínum stað auk Týs sem fagnar breyttri afstöðu fjármálaráðherra í áfengismálum.
- Óðinn veltir fyrir sér kjöri nýs ríkisendurskoðenda.
- Fjallað um nýlegan dóm sem féll Elkem í vil gegn íslenska ríkinu,
- Rætt er við Rögnu Margréti Guðmundsdóttir stofnanda sprotafyrirtækisins Pikkoló.