Arnar Jón Agnarsson, stofnandi Mosi Gin, er að hefja sölu á nýrri íslenskri gintegund sem ber heiti fyrirtækisins. Framleiðsluferli ginsins er afar sérstakt og er ekki vitað til þess að það hafi áður fyrr sést neins staðar í heiminum.

Ginið er geymt í endurnotuðum áfengistunnum sem áður hýstu mismunandi tegundir áfengja eins og viskí og mezcal. Tunnurnar eru síðan látnar sitja úti í íslenskri náttúru og veðurfari í þrjá mánuði áður en lokavaran fer í flöskuna.

Ginið er jafnframt fyrsta áfengistegundin á Íslandi sem er einungis seld beint til neytenda í gegnum einkafyrirtæki. Netverslunin Sante mun sjá um sölu á vörunni og verður ginið einnig selt til bara og veitingastaða í gegnum Kampavínsfélagið.

Varan verður ekki fáanleg í ÁTVR og segir Arnar það vera vegna þeirra ströngu skilyrða sem ríkið setji á áfengisvörur. Varan þarf til að mynda að hafa verið í sölu í ákveðinn tíma og einnig þarf að vera búið að selja ákveðið mikið magn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.