Sema Erla Serdaroglu, stofnandi og for­maður hjálpar­sam­takanna Solaris, var meðal þeirra sem tóku þátt í hluta­fjárút­boði Ís­lands­banka fyrr í mánuðinum og keypti bréf fyrir 20 milljónir króna, sam­kvæmt upp­lýsingum frá Fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytinu.

Kaupin voru skráð á hennar eigin kenni­tölu og er því um persónu­lega fjár­festingu að ræða, óháð rekstri Solaris.

Bréfin voru keypt á genginu 106,56 krónur á hlut en markaðs­gengi Ís­lands­banka­bréfa stendur nú í 118,5 krónum, sem þýðir að hagnaður Semu Erlu um 2,3 milljónir króna hafi hún ekki þegar selt.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í gær voru einungis um 1.500 ein­staklingar af þeim rúm­lega 31.000 sem fengu út­hlutað í út­boðinu sem keyptu fyrir 20 milljónir eða meira.

Á sama tíma og hluta­bréfa­kaup Semu Erlu áttu sér stað hefur ríkis­saksóknari endur­vakið lög­reglu­rannsókn á að­gerðum Solaris.

Rannsóknin lýtur að meintum ólög­mætum fjáröflunum og mútu­greiðslum til er­lendra opin­berra starfs­manna í tengslum við flutning ein­stak­linga frá Gasa til Egypta­lands og þaðan til Ís­lands.

Líkt og Við­skipta­blaðið hefur fjallað um var mikið um að efna­meiri Ís­lendingar stunduðu kenni­tölu­söfnun í út­boðinu til að reyna koma fé sínu yfir á mis­munandi kenni­tölur til að hagnast meira á til­boðsverði ríksins.