Síminn og franska sjóðastýringafélagið Ardian hafa náð samkomulagi um breytingar á kaupsamningi á Mílu þar sem kaupverðið lækkar um fimm milljarða króna. Við þetta lækkar áætlaður söluhagnaður Símans við söluna á Mílu um 4,6 milljarða króna og verður söluhagnaðurinn um 41,8 milljarðar króna.
Ardian fór á sunnudaginn fram á að breytingar yrðu gerðar á kaupsamningnum vegna andstöðu Samkeppniseftirlitsins við ákvæði í heildsölusamningi Símans og Mílu eftir kaupin sem átti upphaflega að vera til tuttugu ára.
Samkvæmt tilkynningu Símans til Kauphallarinnar mun kaupverðið á Mílu lækka úr 78 milljörðum í 73 milljarða. Þá verði 35 milljarðar greiddir í reiðufé í stað 44 milljarða í reiðufé áður og 19 milljarðar verða greiddir í formi skuldabréfs á 4% vöxtum til þriggja ára í stað 15 milljarða í upprunalegum samningi.
Ardian hefur lagt til að ljúka málinu gagnvart Samkeppniseftirlitinu með sátt líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær. þar sem m.a. er lagt til að heildsölusamningur á milli Mílu og Símans verði 17 ár í stað 20 ára að lokinni sölu Símans á Mílu til Ardian. Á móti kemur verði fyrsta mögulega framlengingin 8 ár í stað 5 ára. Ardian lagði einnig breytingar á ákvæðum um samstarf Símans og Mílu og ákvæðum um verðlagningu.
Ardian sagðist engu síður vera ósammála mati Samkeppniseftirlitsins. Samningurinn við Símann um Mílu væri í samræmi við markaðsvenjur í sambærilegum viðskiptum á fjarskiptamörkuðum innan Evrópu og benti á tuttugu slíkt viðskipti máli sínu til stuðnings.