Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur greint frá samkomulagi sem kemur til með að lækka verulega verð á tíu algengum lyfseðilsskyldum lyfjum í Bandaríkjunum. Verðlækkanirnar munu taka gildi árið 2026 og verða á bilinu 38% til 79%. BBC greinir frá.
Verðlækkanirnar munu ná til fólks sem er skráð í Medicare sjúkratryggingarkerfisins. Búist er við að nýju breytingin muni hafa áhrif á níu milljónir Bandaríkjamanna sem nota að minnsta kosti eitt af þeim lyfjum sem falla undir samninginn.
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær að hann vill sjá ríkið hætta að gefa lyfjafyrirtækjum „óútfyllta tékka“ og lýsti samningnum sem létti fyrir milljónir eldri borgara sem þurfa á lyfjunum að halda.
Forsetinn bætti við að breytingarnar kæmu í kjölfar IRA löggjafarinnar í Bandaríkjunum (e. Inflation Reduction Act) sem demókratar samþykktu árið 2022. Lögin gera Medicare kleift að semja beint við framleiðendur um lyfjaverð.
Bandaríska heilbrigðisráðuneytið áætlar að samningurinn muni spara Medicare um sex milljarða dala á fyrsta árinu sem verðbreytingarnar taka gildi.
Stelara fellur undir samkomulagið
Meðal lyfja sem falla undir samkomulagið er Stelara, lyf Johnson & Johnson til meðferðar við miðlungsmiklum og verulegum skellusóra og sóraliðagigt í fullorðnum og börnum sex ára og eldri.
J&J gagnrýndi aðgerðir ríkisstjórnarinnar og sagði að þær myndu til lengri tíma leiða til hærri kostnaðar og draga úr aðgengi að lyfjum og fjölda lyfja, líkt og sjá megi í löndum þar sem ríkið ákveður verð.
Verð á Stelara í Medicare mun lækka úr 12.748 dollurum í 4.695 dollara eða um 63%.
Þess má geta Alvotech hefur þróað líftæknihliðstæðu við Stelara. Í apríl sl. veitti Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) Alvotech markaðsleyfi til sölu og markaðssetningar á hliðstæðunni.
Í júní á síðasta ári tilkynntu Alvotech og Teva að þau hefðu náð samkomulagi við framleiðanda frumlyfisins, Johnson & Johnson, um að sala og markaðssetning á Selarsdi geti hafist 21. febrúar næstkomandi.
Alvotech og samstarfsaðilar þess hafa þegar markaðssett hliðstæðuna við Stelara í Kanada, Japan og fjölda Evrópuríkja.